Latest entries

föstudagur, 11. sep 2020

Aðalfundur, bókakvöld og hádegisfyrirlestrar

Starfsemi Sagnfræðingafélags er að hefjast af fullum krafti eftir að hafa verið í hægagangi sökum kórónuveirufaraldursins síðustu mánuði.

Aðalfundur félagsins verður haldinn 30. september og hefst klukkan 20:00. Staðsetning verður tilkynnt síðar sem og full dagskrá að ógleymdu því hvaða fyrirlestur verður boðið upp á að fundi loknum.

Eitt stykki heimsfaraldur setti strik í reikninginn í hádegisfyrirlestraröð vorsins um Ísland sem hernumið land. Við látum ekki deigan síga heldur hefjum fyrirlestrahald aftur 29. september á hefðbundnum stað og tíma. Fyrirlestrarnir verða kynntir betur innan skamms.

Það styttist óðum í bókakvöld þar sem fjallað verður um nýlegar bækur og höfundar fá tækifæri til að bregðast við umsögn gagnrýnenda. Bókakvöldið verður haldið í Neskirkju 22. september og verður auglýst eftir helgi.

Kall eftir málstofum. Íslenska söguþingið 2021

Fimmta íslenska söguþingið fer fram 27—29 maí 2021 í húsakynnum Háskóla Íslands í Stakkahlíð. Að þinginu standa Sagnfræðingafélag Íslands, Sagnfræðistofnun, Sögufélag, Félag sögukennara og Félag íslenskra safna og safnamanna. Tilgangur söguþings nú líkt og þá er að leiða saman sagnfræðinga og áhugamenn um íslenska sögu til að fjalla um nýjar rannsóknir og það sem efst er á baugi innan sagnfræðinnar. Á veggspjöldum verða kynntar rannsóknir og starfsemi einstaklinga og félaga og bókaforlög munu kynna bækur sínar. Skemmtanir verða haldnar með sögutengdu efni og í lokin er þingveisla.

Þingið er skipulagt í styttri eða lengri málstofum, (1,5 klst eða 3 klst) og auglýsir undirbúningsnefndin hér með eftir hugmyndum um efni fyrir málstofur.

Enn fremur er auglýst eftir veggspjöldum sem kynna til dæmis nýjar rannsóknir í sagnfræði, starfsemi félaga og útgáfu.

Málstofur skulu vera skipaðar 3—4  þátttakendum auk málstofustjóra sem stýrir málstofunni. Sé fjöldi þátttakenda meiri en fjórir er mælt með að sækja um tvöfalda  málstofu.

Umsækjendur eru beðnir um að skila

  1. a) Titli á málstofu
  2. b) 250-300 orða lýsingu á efni málstofunnar
  3. c) Nöfn þátttakenda og titla á erindum.
  4. d) Nafn málstofustjóra og nafn tengiliðs við stjórn söguþings. (Má vera sami einstaklingurinn)

Verði málstofan samþykkt verða þátttakendur beðnir um að skila úrdrætti af erindum sínum eigi síðar en 1.febrúar 2021

Skilafrestur á tillögum fyrir málstofur er 1.nóvember nk. Skilafrestur á tillögum fyrir veggspjöld er 15.janúar 2021.

Umsækjendur eru beðnir að senda póst með umsókn á netfangið heh4@hi.is merktan Söguþing 2021

Allar frekari upplýsingar veitir Hafdís Erla Hafsteinsdóttir (heh4@hi.is), framkvæmdastjóri söguþings.

þriðjudagur, 25. ágú 2020

Haust á tímum COVID

Kórónuveirufaraldurinn hafði áhrif á starfsemi Sagnfræðingafélags Íslands í vor, þannig að fresta þurfti nokkrum opinberum fundum, og veldur enn óvissu um hvernig starfsemin verður í haust. Stjórn kannar nú möguleika á að halda uppi starfi félagsins með slíkum hætti að sóttvarnir séu tryggðar. Þar á meðal með hvaða hætti aðalfundur verður haldinn og möguleika á því að halda hádegisfyrirlestra og bókafund. Það skýrist vonandi innan skamms hvernig dagskráin verður og kynnum við það um leið og niðurstaðan liggur fyrir.

miðvikudagur, 1. júl 2020

Söguþing 2021

Kæru félagar, takið síðustu helgina í maí frá fyrir Söguþing 2021!
Fimmta íslenska söguþingið fer fram 27—29 maí 2021 í Háskóla Íslands. Tilgangur söguþings nú eins og þá er að leiða saman sagnfræðinga og áhugamenn um íslenska sögu til að fjalla um nýjar rannsóknir og það sem efst er á baugi innan sagnfræðinnar. Gert er ráð fyrir að ríflega tuttugu málstofur verði á þinginu en auk fræðilegrar dagskrár verður boðið upp á ýmislegt annað í tengslum við þingið. Á veggspjöldum verða kynntar rannsóknir og starfsemi einstaklinga og félaga og bókaforlög munu kynna bækur sínar. Skemmtanir verða haldnar með sögutengdu efni og í lokin er þingveisla.

Skilafrestur á málstofutillögum verður 1. nóvember 2020 en ítarlegra þingkall verður sent út í haust.

föstudagur, 15. maí 2020

Skrifa um hugmyndaheim Páls Briem

Sjö sagnfræðingar taka höndum saman í nýrri bók um Pál Briem sem kom út á dögunum. Í bókinni Hugmyndaheimur Páls Briem í ritstjórn Ragnheiðar Kristjánsdóttur og Sverris Jakobssonar eru fræðimenn með ólíkan bakgrunn fengnir til að skoða framlag Páls þegar hann var virkur í stjórnmálum sem þingmaður, sýslumaður og amtmaður á síðustu árum nítjándu aldar og við upphaf þeirrar tuttugustu.

Háskólaútgáfan gefur bókina út sem er sú 24. í röð Sagnfræðirannsókna – Studia Historica, ritröð fræðirita Sagnfræðistofnunar sem hóf göngu sína árið 1972.

„[M]á segja að í bókinni sé Páll eins konar fundarstaður þar sem fræðimenn beina sjónum að tilteknu efni eða tímabili, hver frá sínu sjónarmiði,“ segir í inngangi bókarinnar. Gunnar Karlsson skrifaði kafla um Pál sem einn af frumkvöðlum frjálslyndrar vinstristefnu og Helgi Skúli Kjartansson skrifar um Pál sem leiðandann sem ekki varð. Erla Hulda Halldórsdóttir skrifar um kvenfrelsi út frá Páli og Elínu tvíburasystur hans. Sverrir Jakobsson skrifar um rannsóknir Páls á Grágás og hvernig hann setti lög miðaldar í samhengi við samtíma sinn. Ragnheiður Kristjánsdóttir skrifar um hugmyndir Páls um framkvæmd kosninga og Vilhelm Vilhelmsson skrifar um viðhorf Páls til leysingar vistarbands. Loks skrifar Guðmundur Jónsson um hugmyndir Páls um félagsmál. Kaflarnir sjö byggja á fyrirlestrum sem höfundar fluttu á málþingi um Pál árið 2016 sem haldið var í samvinnu Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands við afkomendur hans.

föstudagur, 24. apr 2020

Langar þig til að skrifa söguna?

Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands kynnti á dögunum námsleiðir í framhaldsnámi við deildina. Þau sem hafa áhuga á framhaldsnámi í sagnfræði, hugmynda- og vísindasögu, fornleifafræði eða einhverjum hinna námsleiðanna í sagnfræði- og heimspekideild geta enn skoðað kynningarnar þótt þær séu afstaðnar. Námsleiðirnar gefa góð tækifæri til að rannsaka íslenskt samfélag og koma þeim niðurstöðum á framfæri.

Hér má finna upptöku af öllum kynningunum.

Á myndinni má sjá sagnfræðinema í kynningu hjá Sagnfræðingafélagi Íslands, Sögufélagi og ReykjavíkurAkademíunni í vetur.

föstudagur, 10. apr 2020

Gísli Gunnarsson látinn

Gísli Gunnarsson sagnfræðingur er látinn, 82 ára að aldri. Hann fékkst einkum við hagsögu og sendi frá sér bókina Upp er boðið Ísaland árið 1987 um einokunarverslunina og íslenskt samfélag á árunum 1602 til 1787. Bókin byggði á doktorsrannsókn Gísla við Háskólann í Lundi og vakti mikla athygli.

Gísli lauk MA-prófi í sagnfræði og hagfræði við Háskólann í Edinborg árið 1961. Hann lauk doktorsprófi í hagsögu frá Háskólanum í Lundi 1983. Gísli kenndi í gagnfræðaskóla á árunum 1961 til 1972. Gísli var ráðinn kennari í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 1982 og varð prófessor árið 1997.

Á löngum ferli skrifaði Gísli fjölda greina, bókarkafla og bóka. Auk fyrrnefndrar Upp er boðið Ísaland má nefna Fiskurinn sem munkunum fannst bestur og tveggja binda verkið Líftaug landsins um utanríkisverslun Íslendinga þar sem hann var einn höfunda.

Gísli fæddist 19. mars 1938. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Sigríði Ingileifu Sigurbjörnsdóttur, þrjár dætur, þær Birnu, Málfríði og Ingileifu og sex barnabörn. Jarðarförin fer fram í kyrrþey en minningarathöfn verður haldin þegar samkomubanni hefur verið aflétt.

fimmtudagur, 2. apr 2020

Afboðun hádegisfyrirlestra

Nú liggur fyrir að samkomubann vegna Covid-19 veirufaraldursins hefur verið framlengt út apríl.
Af þeim sökum er sjálfhætt með fyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins, Blessað stríðið? Ísland sem hernumið land. Stjórn félagsins hefur tekið þá ákvörðun að færa fyrirlestraröðina til hausts 2020.
Dagskrá haustsins verður auglýst þegar nær dregur.

Frekari frestun aðalfundar

Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands hefur í ljósi aðstæðna tekið þá erfiðu ákvörðun að fresta aðalfundi félagsins enn frekar. Aðalfundurinn verður haldinn eins snemma og verða má á haustmánuðum 2020.

Nákvæmari dagsetning verður auglýst síðar.

Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands

þriðjudagur, 17. mar 2020

Frestun aðalfundar

Vegna samkomubanns og almannaheilla neyðist stjórn Sagnfræðingafélags Íslands til að fara á svig við lög félagsins og fresta aðalfundi sem fyrirhugaður hafði verið miðvikudaginn 25. mars næstkomandi.

Samkomubanninu er ætlað að standa til mánudagsins 13. apríl næstkomandi með þeim fyrirvara að það gæti verið stytt eða lengt. Um leið og frekari upplýsingar liggja fyrir mun stjórn Sagnfræðingafélagsins boða til aðalfundar.


This page


Rotationg image

RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.