1. grein
Nafn og heimilisfang
Félagið heitir Sagnfræðingafélag Íslands. Lögheimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.
2. grein
Markmið og leiðir
Markmið félagsins er að efla íslenskar sagnfræðirannsóknir, sögukennslu og miðlun sögu til almennings. Einnig ber því að stuðla að varðveislu heimilda og greiðari aðgangi að þeim. Það skal vinna að samstarfi sagnfræðinga innbyrðis og gæta hagsmuna þeirra, jafnframt því að stuðla að samvinnu við þá sem við tengd störf fást. Þá ber félaginu að vinna að samstarfi íslenskra sagnfræðinga við fræðafélaga sína erlendis og samtök þeirra.
Í þessum tilgangi skal félagið meðal annars gangast fyrir fundum, ráðstefnum og námskeiðum, gefa út fréttabréf, halda úti heimasíðu og tölvupóstlista, tilnefna fulltrúa í Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga og skipa nefndir til að starfa að málefnum er varða markmið þess. Félaginu er heimilt að starfa með öðrum félögum og stofnunum að einhverju eða öllu leyti að markmiðum sínum.
3. grein
Félagsaðild
Eftirtaldir geta sótt um aðild að félaginu:
- Þeir sem hafa lokið B.A.–prófi, eða sambærilegu prófi, með sagnfræði sem aðalgrein frá viðurkenndum háskóla.
- Aðrir sem uppfylla þær fræðilegu kröfur sem gera verður til háskólamenntaðra sagnfræðinga.
Sækja skal skriflega um inngöngu í félagið til stjórnar þess og úrskurðar hún hvort umsækjandi uppfylli framangreind skilyrði. Skjóta má úrskurði hennar til félags- eða aðalfundar.
4. grein
Skyldur félagsmanna
Félagsmenn skulu greiða árgjald félagsins samkvæmt ákvörðun aðalfundar. Félagsmenn sjötugir eða eldri eru gjaldfrjálsir. Við inngöngu gangast menn undir lög og siðareglur félagsins. Stjórn félagsins er heimilt að víkja félagsmanni úr félaginu skuldi viðkomandi tvö eða fleiri árgjöld. Ef félagsmaður svo sannað sé gengur í berhögg við lög eða siðareglur félagsins, getur stjórn félagsins veitt honum áminningu eða vikið honum úr félaginu ef ávirðingar eru alvarlegar. Ef félagsmanni er vikið úr því á grundvelli brota gegn lögum eða siðareglum þarf að bera brottreksturinn undir félagsmenn á félagsfundi eða aðalfundi. Telst brottreksturinn gildur ef meirihluti fundarmanna greiðir honum atkvæði sitt.
5. grein
Heiðursfélagar
Heimilt er að kjósa heiðursfélaga á aðalfundi. Tillögur um nýja heiðursfélaga skulu berast stjórn félagsins minnst fjórum vikum fyrir aðalfund. Heiðursfélagar hafa sömu réttindi og skyldur og aðrir félagsmenn en eru þó undanþegnir greiðslu árgjalds.
6. grein
Aðalfundur
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Fundinn skal halda í mars ár hvert. Komi upp slíkar aðstæður í þjóðfélaginu að ekki reynist unnt að halda hann í mars skal aðalfundur haldinn svo fljótt sem auðið er. Til hans skal stjórn félagsins boða með opinberri auglýsingu (svo sem á samfélagsmiðlum, vef félagsins, gegnum póstlista félagsins eða í fjölmiðlum) með minnst 10 daga fyrirvara. Dagskrá aðalfundar skal vera svohljóðandi:
- Formaður lýsir eftir framboðum til fundarstjóra og fundarritara aðalfundar sem að loknu kjöri taka við fundarstjórn og ritun fundargerðar.
- Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
- Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
- Lagabreytingar (sbr. 9. grein).
- Kjör stjórnar (sbr. 8. gr.). Kjör tveggja endurskoðenda reikninga og tveggja fulltrúa í Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga til eins árs.
- Önnur mál.
Áður en fundur er settur skulu liggja frammi gögn þess efnis að til fundarins hafi verið löglega boðað. Ef áhöld eru um að rétt hafi verið staðið að fundarboði, skal kjörinn fundarstjóri skera úr um lögmæti fundarins. Fundarstjóri skal fylgja almennum venjum um fundarsköp. Einungis félagsmenn hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Á fundinum ræður einfaldur meirihluti í öllum málum nema þeim sem lúta að breytingum á lögum félagsins (sbr. 9. gr.). Ársskýrsla stjórnar og endurskoðaðir reikningar skulu birtir í fréttabréfi og/eða á heimasíðu félagsins. Halda skal fundargerð um aðalfund og skal fundarstjóri staðfesta hana með undirskrift sinni.
7. grein
Félagsfundir
Stjórn félagsins skal boða til lokaðs fundar sem kallast félagsfundur þegar henni þykir ástæða til og einnig ef að minnsta kosti 30 félagsmenn óska þess. Skal boða til félagsfunda með sama hætti og til aðalfunda, og fundarsköp skulu vera þau sömu. Halda skal fundargerð um félagsfundi og skal fundarstjóri staðfesta hana með undirskrift sinni.
8. grein
Stjórn
Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðal- og félagsfunda. Hún skipuleggur starf félagsins og sér jafnframt um að framkvæma ákvarðanir félags- og aðalfunda. Stjórninni er heimilt að skipa nefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum í umboði sínu.
Stjórn skipa sjö félagsmenn: Formaður, varaformaður, ritari (sem jafnframt er skjalavörður félagsins), gjaldkeri, ritstjóri miðla og tveir meðstjórnendur.
Á aðalfundi skal formaður kjörinn til tveggja ára í senn og getur enginn setið lengur sem formaður en í sex ár. Ef fleiri en tveir bjóða sig fram til formanns skal kjósa í tveimur umferðum, þar sem í síðari umferðinni skal kosið milli tveggja efstu. Aðrir stjórnarmenn skulu kjörnir til tveggja ára í senn á aðalfundi. Enginn má þó sitja í stjórn lengur en sex ár samfellt. Kosning stjórnarmanns skal fara þannig fram að kosið er um hvern frambjóðanda sér og skulu þeir ganga í stjórn sem flest atkvæði fá. Ef frambjóðendur fá jafnmörg atkvæði skal kosið milli þeirra. Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund ár hvert skiptir hún með sér verkum.
Óski formaður þess að hætta áður en kjörtímabilið rennur út, skal varaformaður taka við og stjórn skipa nýjan varaformann fram að næsta aðalfundi úr hópi stjórnar. Óski stjórnarmaður eftir lausn frá störfum áður en kjörtímabili hans lýkur skal stjórnin skipta með sér störfum hans fram að næsta aðalfundi. Ef meira en 1/3 stjórnar hættir skal boða til aukaaðalfundar á sama hátt og kemur fram í 7. grein.
Stjórnin telst ályktunarhæf ef fjórir eða fleiri stjórnarmenn sitja fund. Einfaldur meirihluti ræður á fundum stjórnar. Ef atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns. Halda skal fundargerð um stjórnarfundi er leggja skal fram til samþykktar í byrjun næsta fundar.
9. grein
Lagabreytingar
Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögur að lagabreytingum skulu hafa borist stjórn félagsins fjórum vikum fyrir aðalfund og skulu þær kynntar í fundarboði. Skal atkvæðagreiðsla um lagabreytingar fara fram með þeim hætti að kosið er sérstaklega um hverja lagagrein. Fundarmenn geta lagt fram breytingartillögur við auglýstar lagabreytingar ef 2/3 fundarmanna samþykkir að þær séu lagðar fram. Kjósa skal fyrst um breytingartillögur. Til lagabreytinga þarf samþykki að minnsta kosti 2/3 fundarmanna.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi Sagnfræðingafélags Íslands hinn 27. mars 2010 og falla þar með úr gildi lög frá 8. september 2001. Nýju ákvæði um tímasetningu aðalfundar við óviðráðanlegar aðstæður var bætt inn á aðalfundi 30. september 2020. Ákvæðum um boðun fundar, kosningu fundarstjóra og fundarritara aðalfundar og samsetningu stjórnar var breytt á aðalfundi 16. mars 2023.