1. kafli

Frumregla

Siðleg hegðun sagnfræðinga byggist á heiðarleika. Heiðarleiki er grundvöllur samskipta þeirra á milli og við annað fólk. Siðareglurnar miða að því að skýra og skilgreina hvernig hugtakið heiðarleiki á við í starfi sagnfræðinga.
Allir sagnfræðingar eiga í starfi sínu að leggja áherslu á að hafa það sem sannara reynist, óháð tengslum þeirra við opinberar stofnanir, samtök (t.d. stjórnmálaflokka), fyrirtæki og einstaklinga, þar á meðal starfssystkini. Heiðarleg vinnubrögð er hafa sannleika að leiðarljósi hljóta alltaf að þjóna samfélaginu, vísindunum og faginu best.

2. kafli

Fagleg vinnubrögð

Sagnfræðingar skulu kappkosta að vanda vinnubrögð sín svo að rannsóknir þeirra standist kröfur um fagmennsku. Þeir skulu rökstyðja mál sitt en forðast órökstuddar fullyrðingar.
Sagnfræðingar skulu ávallt vísa til heimilda þar sem það á við, með þeim hætti að lesandi geti á auðveldan hátt sannreynt heimildina. Þá skal vísa í eins upprunalega heimild og unnt er. Á sama hátt skulu sagnfræðingar sem stunda kennslu leitast við að skýra út rétt fræðimanna til hugverka sinna og hvetja nemendur til að virða þann rétt.

Sagnfræðingar eiga að vera gagnrýnir, jafnt á eigin niðurstöður sem annarra. Sagnfræðingar ættu ekki að samþykkja niðurstöður annarra fræðimanna út af orðspori þeirra einu saman né ættu þeir að samsinna viðteknum túlkunum af gömlum vana. Þeir ættu ávallt að vera reiðubúnir að skipta um skoðun ef ástæða er til.

Mikilvægi fræðimanns og mat jafningja hans á honum skal byggja á frumleika þeirra hugmynda sem fram koma í verkum hans, nýjungum sem hann hefur innleitt og þeirri þekkingu á sögunni sem hann hefur aflað og komið til skila. Þetta ber að hafa í huga alls staðar þar sem lagt er mat á framlag sagnfræðingsins.
Það eru óvönduð og óheiðarleg vinnubrögð ef sagnfræðingar vísvitandi:

  • búa til upplýsingar sem engar heimildir eru fyrir;
  • falsa heimildir;
  • stela úr ritverkum, hugmyndum eða kenningum annarra; og velja úr heimildum aðeins það sem hentar niðurstöðum þeirra en sleppa að geta þess sem mælir á móti; og misnota upplýsingar til stuðnings niðurstöðum sínum.

Skylda sagnfræðinga er að fylgjast vel með fræðilegri umræðu og koma þeirri umræðu til skila þar sem það á við, þar á meðal í kennslu. Þótt sagnfræðingar hafi sjálfsagðan rétt til að halda fram eigin skoðunum í kennslu skulu þeir ávallt gæta sanngirni gagnvart skoðunum annarra.

3. kafli

Varðveisla og aðgangur heimilda

Sagnfræðingar skulu leitast við að tryggja varðveislu sögulegra heimilda.
Sagnfræðingur skal ekki vísvitandi eyðileggja heimild af nokkru tagi í þeim tilgangi að fela eða eyða upplýsingum nema ef um er að ræða persónulegar heimildir hans sjálfs. Til persónulegra heimilda teljast óbirtar heimildir eins og dagbækur, einkabréf, sjálfsævisögur, viðtöl eða annar persónulegur vitnisburður sem einstaklingar skilja eftir sig. Æskilegt er að sagnfræðingar fari fyrir með góðu fordæmi og komi fræðilegum og persónulegum heimildum sínum á söfn og tryggi varðveislu þeirra og notkun með eðlilegum skilyrðum. Sagnfræðingar skulu hvetja alla þá sem eiga sögulegar eða persónulegar heimildir í sínum fórum að koma þeim á söfn til varðveislu og skýra út möguleika þeirra á að reisa skorður við notkun heimilda.

Sagnfræðingar ættu að stuðla að opnum og frjálsum aðgangi að sögulegum heimildum hvort sem það eru ritheimildir, fornleifar eða önnur ummerki sem fortíðin hefur látið eftir sig. Mikilvægt er að sagnfræðingar reyni ekki aðeins að tryggja góðan aðgang að heimildum heldur ber þeim skylda til að vekja athygli á ef opinberar stofnanir reyna að hindra eðlilega notkun þeirra og/eða aðgang að þeim.
Þótt meginreglan sé sú að sagnfræðingar skuli tryggja varðveislu heimilda og opinn aðgang að þeim, þá þurfa þeir að vera sér meðvitaðir um þann trúnað sem er á milli þeirra og fólksins sem skildi eftir sig heimildirnar og haga vinnu sinni í samræmi við það. Aldrei skal birta persónulega heimild í trássi við vilja höfundar hennar, sé hann á lífi, ella skal leitast við að hafa samráð við nákomna ættingja við útgáfuna. Æskilegt er undir venjulegum kringumstæðum að vernda höfunda viðkvæmra upplýsinga þannig að tryggt sé að persónuleg skrif þeirra verði ekki höfð að leiksoppi eða orðsír þeirra bíði ekki hnekki af. Þannig verða sagnfræðingar að meta hverju sinni hvernig heimildirnar verði notaðar og hversu langt skuli ganga í að gera þær opinberar. Þetta á einkum við um notkun persónulegra heimilda. Þegar unnið er með viðtöl er sjálfsagt að gera heimildarmanni grein fyrir rétti sínum og komast að skýru samkomulagi um notkun upplýsinganna.

4. kafli

Trúnaðarmál

Æskilegt er að stofnanir, þar sem fram fara sagnfræðirannsóknir, móti vinnureglur um það hvernig taka beri á ásökunum um ófagleg vinnubrögð.
Mikilvægt er að nýliðar í faginu fái sem besta þjálfun í fræðilegum vinnubrögðum. Því er æskilegt að þeim sé fenginn umsjónarmaður, a.m.k. frá því að rannsóknarnám þeirra hefst, sem þeir geta leitað til og fylgist með framvindu rannsókna þeirra.

Sagnfræðingur skal ávallt gera grein fyrir styrkjum og öðrum hagsmunatengslum sem gætu skipt máli þegar rannsókn er birt.

Þótt sagnfræðingur sé á launum eða þiggi styrk við vinnslu rannsóknar er frumskylda hans ávallt sú að hafa það sem sannara reynist og nota fagleg vinnubrögð. Sú skylda skal ætíð tekin fram yfir hagsmuni styrktaraðila eða verkkaupa.

Sagnfræðingur skal ekki nota sér stöðu sína gagnvart nemendum, undirmönnum eða öðrum samstarfsaðilum til að þröngva sínum sjónarmiðum upp á þá eða refsa þeim fyrir að vera ósammála. Þess í stað komi uppbyggilegar rökræður sem eru lífsblóð fræðanna.

Sagnfræðingi er heimilt að nota sér það starf sem fram fer undir hans stjórn, og er innt af hendi af nemendum eða undirmönnum, í rannsóknum sínum og ritverkum en skal þá ætíð geta framlags þeirra. Sagnfræðingar skulu ekki eigna sér heiðurinn af hugmyndum nemenda sinna eða undirmanna eða nýta sér vinnu þeirra án þess að skýra frá í hverju framlag þeirra er fólgið. Óbirt gögn annarra fræðimanna skal aðeins nota með fullu samþykki og í samræmi við vilja þeirra, enda komi skýrt fram hvaðan þau eru fengin.

Vinnu sagnfræðings eða nemanda í sagnfræði á háskólastigi skal meta eftir rannsóknavinnu, framsetningu og rökstuðningi en ekki eftir því hvernig niðurstaðan fellur matsaðila í geð.

Ef sagnfræðingur tekur að sér verkefni og þiggur fyrir það laun eða styrk verður hann að leggja metnað sinn í að ljúka því á umsömdum tíma og á sómasamlegan hátt.

Höfundar ritverka bera ábyrgð á orðum sínum og skulu gæta þess að sýna fræðimönnum jafnt sem öðrum fulla virðingu. Illmælgi og rógur eiga sér enga réttlætingu.

5. kafli

Hagsmunaárekstrar

Stuðla ber að heiðarlegri samkeppni á milli sagnfræðinga um stöður, verkefni og styrki. Æskilegt er að allt slíkt sé auglýst þannig að sem flestir sagnfræðingar eigi kost á að sækja um.

Sagnfræðingar mega aldrei gefa villandi upplýsingar í umsóknum sínum um stöður, verkefni eða styrki.

Þeir sem þurfa að leggja mat á verk, umsóknir eða feril sagnfræðings skulu ávallt gæta fyllstu óhlutdrægni en aldrei láta persónulega velvild eða óvild, hagsmunatengsl eða hagsmunaárekstra hafa áhrif á mat sitt. Sé hætta á hlutdrægni skulu þeir skilyrðislaust víkja sæti.

Sagnfræðingar eiga að leitast við að samþýða óskir þeirra, sem styðja rannsóknir þeirra eða kosta þær að fullu, grundvallarreglum fræðimennskunnar, eins og þeim er lýst í siðareglum þessum.