Félagsaðild

Við hvetjum alla sagnfræðinga til að gerast félagar í Sagnfræðingafélagi Íslands. Samkvæmt lögum félagsins geta þau sem hafa lokið B.A.–prófi, eða sambærilegu prófi, með sagnfræði sem aðalgrein frá viðurkenndum háskóla sótt um aðild. Sömuleiðis getur fólk sem uppfyllir þær fræðilegu kröfur, sem gera verður til háskólamenntaðra sagnfræðinga, sótt um aðild.

Umsóknir um aðild skulu vera skriflegar. Þær skal senda á félagið í tölvupósti á netfangið Sagnfraedingafelagid@gmail.com. Í umsókninni skal tilgreina nafn, heimilisfang, kennitölu og tengiliðaupplýsingar umsækjanda. Þar skal einnig gera grein fyrir því námi sem viðkomandi hefur lokið á sviði sagnfræði eða þeim eiginleikum sem umsækjandi telur fullnægja kröfum sem gera má til félagsmanna.

Stjórn félagsins tekur aðildarumsóknir fyrir og úrskurðar um hvort umsækjandi uppfylli kröfur til félagsmanna og tilkynnir umsækjanda um niðurstöðu sína. Úrskurði stjórnar má skjóta til félagsfundar eða aðalfundar.

Félagar í Sagnfræðingafélaginu greiða árgjald að upphæð 3.500 kr.

 

Sagnfræðingafélagið á samfélagsmiðlum

Nýjustu fréttir af starfsemi Sagnfræðingafélags Íslands birtast á samfélagsmiðlum og póstlista félagsins. Við hvetjum félaga og annað áhugasamt fólk því til að fylgjast með síðum félagsins á Facebook og Instagram.

 

Gammabrekka

Gammabrekka er tölvupóstlisti Sagnfræðingafélags Íslands. Þar gefst fólki tækifæri til að tjá sig um hagsmunamál sagnfræðinga, jafnframt því sem að listinn er vettvangur umræðna um fræðileg álitamál. Þar birtast einnig tilkynningar um fundi og ráðstefnur, sýningar og útgáfur, styrki og laus störf, svo fátt eitt sé nefnt. Þessar tilkynningar koma ekki aðeins frá Sagnfræðingafélaginu sjálfu heldur einnig tengdum fræðafélögum, háskóla- og menningarstofnunum, ásamt skjala- og listasöfnum. Listinn var stofnaður árið 1998 og hefur síðan verið mikilvægur þáttur í starfi félagsins. Á sínum tíma var efnt til samkeppni um nafn á hann og varð Helgi Þorláksson prófessor hlutskarpastur, en Gammabrekka er örnefni við Odda á Rangárvöllum.
Auðveldast er að skrá sig á Gammabrekku með því að fara á vefslóðina
http://listar.hi.is/mailman/listinfo/gammabrekka (þar eru líka leiðbeiningar um afskráningu). Efni inn á listann er síðan sent á netfangið gammabrekka@listar.hi.is.

Vinsamlega forðist að nota viðhengi við skeytin sem þið sendið inn á Gammabrekku. Þá er rétt að minna á að óheimilt er að senda keðjubréf inn á listann og einnig viljum við hvetja fólk til að áframsenda ekki tilkynningar um vírusa nema að áður hafi verið gengið úr skugga um að raunveruleg hætta sé á ferðum. Leiki vafi á því hvort tilkynning eigi erindi á póstlistann ber hlutaðeigendum að setja sig í samband við stjórn félagsins.