Ragnhildur Hólmgeirsdóttir heldur síðasta hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins á vormisseri þriðjudaginn 18. apríl, og kallast hann „Á jaðri hins pólitíska valds? Norskar drottningar á miðöldum”. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands, en hádegisfyrirlestrarnir eru skipulagðir í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Kóngafólk er varla sá samfélagshópur sem fyrst kemur upp í hugann þegar rætt er um jaðar samfélagsins. En þó drottningar á miðöldum hafi staðið nærri miðju pólitískra valda voru þær sakir kyns síns jaðarsettar. Þær hafa síðan fallið á milli tveggja sviða í fræðimennsku. Þeir sem rannsaka miðaldastjórnmál og þróun konungsvalds hafa oft lítinn áhuga eða þekkingu á kvennasögu á meðan fræðimenn á sviði kynjasögu hafa takmarkaðan áhuga á lífshlaupi einstaklinga úr efsta lagi samfélagsins. Saga norskra drottninga veitir engu að síður einstakt sjónarhorn á stöðu norrænna kvenna yfir lengra tímabil en íslenskar heimildir gefa kost á. Í fyrirlestrinum verður fjallað um muninn á pólitískum áhrifum og völdum og að hve miklu leyti þessar konur falli undir þær skilgreiningar. Á hverju byggðust áhrif þeirra og völd, hvaða breytingar urðu á þeim á tímabilinu og hverra hagsmunir réðu þar för?
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir er sagnfræðingur og rithöfundur. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í miðaldafræðum frá Háskóla Íslands 2015.