Skip to main content

Þriðjudaginn 12. febrúar flytur Tryggvi Rúnar Brynjarsson hádegisfyrirlesturinn „Einfaldur þolandi flókins og forns dómskerfis? Arfleifð skammar og útþynning ábyrgðar við úrlausn Guðmundar- og Geirfinnsmála í samtímanum“ í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur hádegisfyrirlesturinn í samvinnu við Þjóðminjasafnið en hann er hluti af fyrirlestraröð félagsins, sem þetta misserið hefur yfirskriftina „Saga réttarfars og refsinga“.
Í fyrirlestrinum verður rýnt í yfirstandandi uppgjör Guðmundar- og Geirfinnsmála eins og það hefur birst í opinberum skýrslum, greinargerðum og úrskurðum síðastliðins áratugs. Sérstök áhersla og umræða verður um sýn hinna ýmsu (mestanpart löglærðra) leikenda samtímans á þeim sögulegu atburðum og persónum sem málin snerta.
Við flutning málanna fyrir Hæstarétti í september síðastliðnum voru efnisleg átök og álitamál í sýnilegu lágmarki og kröfðust bæði ákæruvaldið og verjendur dómþola sömu niðurstöðu. Leiðin að sýknu var þó fjarri því átakalaus. Eitt þeirra atriða sem tekist var á um – og er í raun enn óuppgert – snýr að spurningunni um ábyrgð sjálfra dómþolanna á hinum röngu dómum, einkum á því að hafa gefið óáreiðanlega framburði og/eða játað falskt á upphafs­stigum lögreglu­rannsókn­ar­innar. Eiga ástæðurnar fyrir því meðal annars að hafa legið í meintum andlegum og jafnvel vitsmunalegum veikleikum þessara einstaklinga. Á móti hafa vissulega komið fram sjónarmið um hina ýmsu bresti dómskerfis þessa tíma, en þeim hefur hinsvegar iðulega verið lýst sem ópersónubundnum og þeir tengdir tilteknum kerfislægum göllum og úreltum viðmiðum í yfirheyrslutækni.
Tilgáta fyrirlesara er að þetta áherslumisræmi sé fyrst og fremst til marks um undirliggjandi og gegnumgangandi mismunun á grundvelli félagslegrar stöðu og valds. Það sýni hvernig þeir sem hafa æðri stöðu í samfélaginu geta notið verndar sinnar persónu og mannhelgi – þó látnir séu þeir flestir – á meðan hinir valdaminni – sem einnig eru sumir hverjir látnir – eru á sama tíma beraðir fyrir hvassri sálgreiningu og opinberri afhjúpun þeirra meintu persónulegu veikleika. Á grundvelli þessarar tilgátu vakna upp spurningum sem eru í senn lagalegar, söguspekilegar og – vegna sambands fyrirlesara við einn fyrrum dómþolann – persónulegar. Markmiðið er að benda á hliðar hins sögulega uppgjörs sem hefðu betur mátt fara, en jafnframt skoða hvort ennþá sé tækifæri til að takast á við einhverjar af þessum óuppgerðu hliðum málanna.
Tryggvi Rúnar Brynjarsson lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2015 og MA-prófi í sagnfræði frá Háskólanum í Bresku Kólumbíu árið 2017. Hann er dóttursonur Tryggva Rúnars Leifssonar, fyrrum dómþola í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.