Kæru félagar,
Næstkomandi þriðjudag, þann 15. janúar, hefst hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands á ný eftir stutt hlé yfir hátíðirnar. Á vormisseri er yfirskrift fyrirlestraraðarinnar Hvað er sögulegur skáldskapur?
Hólmfríður Garðarsdóttir prófessor í spænsku við Háskóla Íslands ríður á vaðið að þessu sinni með erindi sínu: „Uppgjör við fortíðina – Nýja sögulega skáldsagan í Rómönsku Ameríku“.
Fyrirlesturinn er að venju haldinn í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands og hefst klukkan 12:05 og stendur til klukkan 13:00
Abstract:
Það sem kallað hefur verið nýja sögulega skáldsagan [„la nueva novela histórica“] í Rómönsku Ameríku vísar til bókmenntategundar sem einnig mætti kalla „uppgjörs“ bókmenntir. Vísað er til skáldsagnatexta þar sem sjónum er beint að sögulegum atburðum síðari hluta tuttugustu aldar og í stað hlutlausra lýsinga á því sem þá gerðist eru persónur skáldverkanna nýttar til að tjá og túlka umrædda viðburði. Oftar en ekki er gagnrýnu sjónarhorni beitt við greiningu á valdatíð herforingjastjórna álfunnar á 7. og 8. áratug síðustu aldar og borgarastyrjöldum Mið-Ameríkuríkja undir lok hennar. Orð dr. Jorge Panesi, sviðsforseta Buenos Aires-háskóla, um að bókmenntir séu annað skráningarform sögunnar [„el otro archivo de la historia“], hafa blásið nýju lífi í umræðuna um hlutverk bókmennta við skrásetningu og endurritun sögunnar.
Fyrir hönd Sagnfræðingafélags Íslands,
Vilhelm Vilhelmsson