Þriðjudaginn 10. mars flytur Sumarliði Ísleifsson, sagnfræðingur og ritstjóri, hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands undir yfirskriftinni „Hreinlæti og óhreinlæti í lýsingum frá Íslandi og Grænlandi frá 18. öld og fram á hina 20.“ Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.
Í erindinu verður rætt um hvernig hugmyndir um óhreinlæti og hreinlæti birtast í erlendum lýsingum frá Íslandi og Grænlandi frá 18. öld og fram á hina 20. og kannað hvaða merkingu þessar lýsingar hafa: Eru þær ef til vill aðallega til marks um það hvort og hvernig þjóðir þessara landa séu hluti af siðmenningu og nútíma eða ekki. Litið verður til þess hvort hugmyndir á þessu sviði hafi breyst á 19. og 20. öld og hvernig and-nútímaleg viðhorf höfðu áhrif í þessu samhengi. Kynþáttahyggja kemur hér einnig til umræðu og hvort litið hafi verið á fólk þessara landa sem „hreint“ eða ekki í því samhengi. Loks verður getið um hvaða aðrir menningarsögulegir þættir koma helst til sögu þegar metið er hvort fólk teljist nútímalegt og siðmenntað eða ekki.