Þriðjudaginn 26. febrúar flytur Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir hádegisfyrirlesturinn „Galdra- og brennudómar. Réttarfar Íslendinga á 17. öld“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur hádegisfyrirlesturinn í samvinnu við Þjóðminjasafnið en hann er hluti af fyrirlestraröð félagsins, sem þetta misserið hefur yfirskriftina „Saga réttarfars og refsinga“.
Á sautjándu öld komu upp 152 galdramál á Íslandi sem leiddu til brennudóma yfir 25 einstaklingum. Var flestum dómunum fullnægt, þar af ríflega helmingi í héraði. Hefur sú réttarframkvæmd vakið spurningar í ljósi konungsbréfs sem gefið var út árið 1576 en virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá íslenskum dómstólum lengi vel. Er svo að sjá sem Íslendingar hafi ekki þekkt vel sína eigin löggjöf eða þær tilskipanir sem hingað bárust með konungsbréfum um það hvernig haga skyldi málsmeðferð í „lífs og æru sökum“. Í fyrirlestrinum verður fjallað nánar um réttarframkvæmd þessa tíma í ljósi valinna galdramála sem tekin verða til greiningar og málsástæður þeirra og lagarök rakin.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir lauk doktorsprófi í íslenskum bókmenntum og þjóðfræði frá Háskóla Íslands með ritgerð sinni Brennuöldin. Galdur og galdramál í málskjölum og munnmælum (Háskólaútgáfan 2000). Hún hefur starfað sem frétta- og fjölmiðlamaður, háskólakennari og bókmenntagagnrýnandi auk starfa borgarfulltrúa í Reykjavík, skólameistara á Ísafirði og alþingismanns. Eftir Ólínu liggja fimm útgefnar bækur. Ritsmíðar hennar eru fræði og skáldskapur, þýðingar og kennsluefni auk fjölmargra fyrirlestra og tímaritsgreina.