Þriðjudaginn 12. apríl mun Halldór Grönvold halda hádegisfyrirlestur hjá Sagnfræðingafélaginu sem hann kallar „Samfélag fyrir alla! Framlag verkalýðshreyfingarinnar til velferðar í íslensku samfélagi“. Fyrirlestur Halldórs var áður á dagskrá í mars en féll þá niður. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Í fyrirlestrinum mun Halldór leitast við að gera grein fyrir frumkvæði og leiðandi hlutverki Alþýðusambands Íslands og aðildarsamtaka þess í mótun íslenska velferðarsamfélagsins frá stofnun sambandsins fyrir réttum 100 árum til okkar daga. Einkum verður dvalið við tvo þætti í þessari þróun: Annars vegar það sem lítur að sjúkra- slysa-, lífeyris- og atvinnuleysistryggingum og hins vegar baráttu Alþýðusambandsins fyrir mannsæmandi húsnæði fyrir lágtekjufólk, sigrum þess og ósigrum. Einnig verður leitað svara við spurningunni af hverju barátta Alþýðusambandsins hefur verið jafn „pólitísk“ og sagan sýnir, líka eftir að slitið var á tengsl Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins, og hvernig skýringanna er að leita í því stjórnmálakerfi sem hér þróaðist.
Halldór Grönvold er aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands. Hann hefur BA-gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands og MA-gráðu í vinnumarkaðsfræðum frá University of Warwick og er áhugamaður um verkalýðs- og samfélagssögu.