Hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands á vormisseri 2016 er helguð félagshreyfingum. Það er Helgi Skúli Kjartansson sem ríður á vaðið með fyrirlesturinn „Samvinnuhreyfing og samvinnuhugsjón“ þriðjudaginn 19. janúar. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Samvinnuhugsjónin, sem markaði starfsreglur og sjálfsvitund einnar öflugustu fjöldahreyfingar á Íslandi, var undin af ólíkum þáttum – samábyrgð, sannvirði o.s.frv. – sem breyttust nokkuð milli tímabila og gátu fengið ólíkt pólitískt inntak. Helgi Skúli Kjartansson er sagnfræðingur og prófessor við Menntavísindasvið HÍ. Kringum 1980 vann hann að rannsókn á sögu samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi og hann er aðalhöfundur ritgerðasafnsins Samvinnuhreyfingin í sögu Íslands sem út kom árið 2003.