Þriðjudaginn 23. janúar flytur Hjörleifur Stefánsson erindið „Torfhúsabærinn Reykjavík. Híbýli tómthúsamanna á 19. öldinni“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fyrsti fyrirlestur vormisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Í útdrætti erindisins segir: Sú byggingarsaga Reykjavíkur fram til byrjunar 20. aldar sem er aðgengileg almenningi fjallar að mestu leyti um húsakost og híbýli þeirra sem bjuggu við best kjör, verslunarmenn og embættismenn. Engu að síður bjó meira en helmingur íbúa Reykjavíkur í torfhúsum fram undir aldamótin 1900 og segir fátt af þeim. Gerð verður grein fyrir heimildum um torfhúsabyggð í Reykjavík frá upphafi fram til miðrar 18. aldar og skýrður munur á húsakosti leiguliða og bænda. Fjallað verður ítarlega um híbýlahætti tómthúsmanna og hvernig þeir þróuðust á seinni hluta 19. aldar út torfhúsum í steinbæi. Sýndar verða ljósmyndir og teikningar af öllum húsagerðum eftir því sem heimildir gefa tilefni til.
Hjörleifur Stefánsson er arkitekt að mennt og hefur mestallan sinn starfsferil rekið eigin teiknistofu og unnið að verkefnum sem tengjast varðveislu byggingararfs. Um skeið var hann sviðsstjóri útiminjasviðs Þjóðminjasafns Íslands. Hann hefur skrifað nokkrar bækur um byggingarsögu auk bókar um staðaranda Reykjavíkur og siðfræði byggingarlistar.