Þriðjudaginn 29. janúar flytur Þórunn Guðmundsdóttir hádegisfyrirlesturinn „Voveiflegur dauðdagi Kristínar Sigurðardóttur vinnukonu árið 1756“ í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur hádegisfyrirlesturinn í samvinnu við Þjóðminjasafnið en hann er hluti af fyrirlestraröð félagsins, sem þetta misserið hefur yfirskriftina „Saga réttarfars og refsinga“.
Sagnfræðingar og aðrir sem vilja skoða lífsferil einstaklinga á 18. öld út frá því sem skráð er í opinberar samtímaheimildir verða fljótt varir við heimildaskort, sérstaklega hvað varðar fólk sem fæddist um og fyrir miðja 18. öld. Ekkert heildstætt manntal var tekið milli 1703 og 1801 og mikið vantar inn í safn kirkjubóka, þ.e. prestsþjónustubóka og sóknarmannatala, á fyrri hluta 18. aldar og fram til ársins 1784. Óvíst er hvort þær kirkjubækur sem vantar hafi verið skráðar en í skráningum presta í kirkjubækur er að finna samtímaupplýsingar um lífshlaup einstaklinga. Aðrar heimildir þar sem hægt er að nálgast samtímaheimildir um lífshlaup fólks eru dómabækur. Þar er að finna nöfn þeirra sem komust í kast við lögin á þessum tíma, voru aðilar máls eða voru kallaðir fyrir sem vitni, og ýmsar upplýsingar aðrar.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um mál sem er að finna í dómabók Dalasýslu og var höfðað þegar lík Kristínar Sigurðardóttur fannst við Sámsstaðaá sumarið 1756. Þetta sumar hvarf Kristín, ógift og vanfær vinnukona, frá heimili sínu í Laxárdal í Dalasýslu. Næsta dag var farið að svipast um eftir henni og fannst hún látin við Sámsstaðaá. Áverkar voru á líkinu og ásigkomulag þess svo undarlegt að ástæða þótti til að rannsaka andlátið frekar. Magnús Ketilsson, sýslumaður Dalamanna, kallaði líkskoðunarmenn á sinn fund og fékk þau svör frá þeim að andlátið hefði ekki borið að með eðlilegum hætti. Magnús hóf þá rannsókn sem stóð með hléum í nokkra mánuði. Konur og karlar sem þekktu þá látnu, aðstæður hennar og lífsferil, voru kölluð til yfirheyrslu og þau sem ekki áttu heimangengt sendu skriflegar upplýsingar. Rannsóknin snerist um að finna þann sem hafði verið valdur að dauða Kristínar en inn í rannsóknina fléttaðist líka leitin að föður þess barns sem Kristín gekk með þegar hún lést. Tæpu ári síðar, vorið 1757, féll svo dómur í málinu.
Þórunn Guðmundsdóttir lauk MA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2003. Hún starfaði við 18. aldar fjölskyldurannsóknir við Íslendingabók hjá Íslenskri erfðagreiningu frá 1999 til 2006 og hjá mannfjöldadeild Hagstofu Íslands frá 2006 til 2009. Frá 2009 hefur Þórunn starfað á Þjóðskjalasafni Íslands.