Þriðjudaginn 30. október flytur Atli Antonsson hádegsfyrirlesturinn „Menningarsaga eldgosa“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fjórða erindi þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema þessa hausts er hörmungar.
Allar götur síðan goðar á Alþingi árið 1000 vísuðu til hraunrennslis á Hellisheiði því til stuðnings að goðin hafi reiðst vegna kristnitökunnar hafa Íslendingar túlkað eldgos ekki einungis sem inngrip æðri máttar í samfélagið, heldur einnig sem tákn fyrir örlagaatburði í sögu þjóðarinnar og prófstein á siðferðisþrek hennar og dugnað. Eldgos hafa oft reynst afdrifarík og því er ekki skrýtið að þetta samhengi hafi orðið til í íslenskum bókmenntum og eldgos jafnvel verið túlkuð sem goðsögulegur orsakavaldur að mikilsverðum þáttaskilum. Í þessum fyrirlestri verður reynt að svara því hvernig nábýli Íslendinga við eldfjöll hafi mótað heimsmynd þeirra og hvers konar goðsagnir Íslendingar hafi skapað um sjálfa sig, þjóðerni sitt og sögu sína í aldalangri búsetu á eldfjallaeyjunni. Stiklað verður á nokkrum stórum eldgosum yfir Íslandssöguna með sérstakri áherslu á hvernig menn hafa túlkað merkingu þessara hamfara í bókmenntunum.
Atli Antonsson er doktorsnemi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur lokið MA-prófi í evrópskum bókmenntum frá Humboldt háskóla í Berlín og BA-prófi í almennri bókmenntafræði með heimspeki sem aukagrein frá Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn byggir á doktorsverkefni hans sem nefnist Menningarsaga íslenskra eldgosa.