Þriðjudaginn 7. mars flytur Gunnar Karlsson erindið „Ísland sem jaðarsvæði evrópskrar miðaldamenningar.“ Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Íslendingar bjuggu, ásamt Grænlendingum, á ysta jaðri evrópskrar miðaldamenningar. Hvernig stóð á því að þeir sköpuðu bókmenntir sem hafa orðið einna lífseigastar allra evrópskra miðaldabókmennta? í erindinu verður bent á að elstu vitnisburðir um sérstöðu Íslendinga á bókmenntasviði snúast um þekkingu þeirra á fornum fræðum um Norðurlandamenn. Stungið er upp á því að Íslendingar hafi tekið að sér að varðveita slíkan fróðleik eftir kristnitöku vegna þess að stuðlaður kveðskapur, sem hafði verið nýttur til að varðveita fróðleik um afrek konunga, hefði verið illa séður í konungsríkjum Norðurlanda vegna þess að hann þótti tengjast heiðnu helgihaldi. Vegna þess að Íslendingar voru á jaðri menningarinnar og tilheyrðu engu konungsríki náði bannið ekki til þeirra og þeir fengu það hlutverk að vera gæslumenn fróðleiks um konunga. Síðar kom fleira til; af því að konungsvald náði ekki til Íslands og ekkert opinbert refsivald var til neyddust Íslendingar til að halda ófriði í skefjum með flóknu kerfi málamiðlana, gerðardóma og sátta. Má líta á Íslendingasögur sem rannsóknir á þess konar samfélagi.
Gunnar Karlsson, prófessor emeritus, er upphaflega íslenskufræðingur með Íslandssögu sem kjörsvið. Hann var lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands 1976–80 og prófessor í sömu grein til starfsloka 2009.