Þriðjudaginn 24. mars flytur Finnur Jónasson hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélagsins undir yfirskriftinni „Fátækralöggjöfin frá 1907 til 1935 og sjálfsmynd reykvískra þurfamanna í upphafi 20. aldar“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um fátækralöggjöfina á Íslandi frá árinu 1907 til ársins 1935 og framkvæmd hennar. Einnig verður fjallað um líf þurfamanna í Reykjavík á tímabilinu og viðhorf þeirra til eigin stöðu, viðhorf almennings til fátæktarframfærslu og þurfamennsku og þær breytingar sem urðu á orðræðu um fátækt á tímabilinu.
Árið 1905 voru sett ný fátækralög sem tóku gildi árið 1907 og giltu til ársins 1935. Þrátt fyrir að þau hafi bætt stöðu þurfamanna lítillega voru enn í þeim ákvæði um nær algeran réttindamissi þeirra sem þáðu fátækrastyrki. Fátækralögin voru mjög umdeild og urðu talsverðar deilur um þau, bæði á Alþingi og í dagblöðum, og lagðar voru fram margar tillögur til þess að breyta lögunum til mannúðlegri vegar. Litlar breytingar urðu þó á lögunum á gildistíma þeirra. Framkvæmd fátækralaga í Reykjavík tók hins vegar talsverðum breytingum á lokaárum þriðja áratugarins og aukin harka færðist í meðferð þeirra þurfamanna sem taldir voru eiga sök á eigin vanda. Í fyrirlestrinum verður fjallað um aðstæður þurfamanna í Reykjavík, sjálfsmynd þeirra og viðhorf til eigin stöðu. Fjallað verður um hvernig viðhorf þeirra féllu að skoðunum ráðamanna á þeim og hvort ráða megi breytingar á skoðunum þurfamanna til stöðu sinnar þegar líða tekur á tímabilið.
Finnur Jónasson er MA-nemi í sagnfræði og byggir fyrirlesturinn á meistararitgerð hans.