Hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands á vormisseri 2015 hefst þriðjudaginn 27. janúar nk. með fyrirlestri Erlu Huldu Halldórsdóttur, Ferð til fortíðar & sagnfræðingurinn í verki sínu. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.
Ferð til fortíðar & sagnfræðingurinn í verki sínu
Þótt þeir tímar séu liðnir að sagnfræðingar ímyndi sér að þeir geti að öllu leyti verið hlutlausir gagnvart heimildum sínum er furðu lítið skrifað um það efni á Íslandi. Og heldur ekki hvernig þeir komast að niðurstöðu. Þetta er þó aðkallandi umfjöllunarefni, ekki síst þegar unnið er að rannsókn á ævi einstaklings. Ævisögurritarar, segir bandaríski sagnfræðingurinn Jill Lepore, eru frægir að endemum fyrir að verða ástfangnir af viðfangsefni sínu. Sem fellur svo oftar en ekki af stallinum þegar á rannsóknina líður því aðdáunin getur breyst í óbeit. Í fyrirlestrinum verður rætt um ferð sagnfræðingsins til fortíðar og stöðu hennar sjálfrar í rannsókninni – um samtvinnun tilfinninga og fræða, fortíðar og samtíðar. Um það sem gerist í rýminu milli gamalla bréfa í kassa og bókar, ævisögunnar.
Erla Hulda Halldórsdóttir er sérfræðingur í kvenna- og kynjasögu hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Hún vinnur sem stendur að rannsókn á ævi og bréfum Sigríðar Pálsdóttur.