Latest entries

föstudagur, 13. mar 2020

Frestun hádegisfyrirlestra

Yfirvöld hafa tilkynnt samkomubann sem tekur gildi á miðnætti 15. mars eða aðfaranótt næstkomandi mánudags. Samkomubannið gildir í fjórar vikur.

Af þeim sökum er öllum fyrirlestrum í sal Þjóðminjasafns aflýst þann tíma sem samkomubannið varir. Það á auðvitað einnig við um fyrirlestra á vegum Sagnfræðingafélags Íslands.

Fyrirlestrum Agnesar Jónasdóttur 17. mars og Sverris Jakobssonar og Stefáns Pálssonar 31. mars verður því frestað.  Fyrirlestur Skafta Ingimarssonar 14. apríl er á dagskrá eftir að fyrirhugðu samkomubanni lýkur og því líklegt að af honum verði.

Sagnfræðingafélagið mun að sjálfsögðu setja fyrirlestrana aftur á dagskrá þegar aðstæður leyfa.

Framundan er tími inniveru og íhugunar og því bendum við fólki á að hér á vefsíðunni er hafsjór af upptökum af hádegisfyrirlestrum sem ná allt aftur til 2008 sem fróðleiksfúsir geta sökkt sér í þar til að fræðasamfélagið getur leyft sér að koma saman á ný.

miðvikudagur, 11. mar 2020

Þriðji hádegisfyrirlestur vorsins: Ástandsárin og barnavernd

Þann 17. mars flytur Agnes Jónasdóttir halda þriðja fyrirlestur vorsins í hádegisfyrirlestrarröð Sagnfræðingafélagins. Fyrirlestraröð vorannarinnar er helguð hernámi Íslands í seinni heimsstyrjöld, en í ár eru 80 ár frá því að Ísland var hermunið og er yfirskriftin því „Blessað stríðið?“ þar sem fyrirlesarar leitast við að skoða stríðsárin og afleiðingar þeirra í víðu samhengi.

Agnes skoðar hin alræmdu „ástandsár“ út frá sjónarmiðum barnaverndar.

Eins og allir vita var umfjöllum um sambönd íslenskra kvenna við erlenda hermenn í hámæli á stríðsárunum. Viðbrögð ríkisins við ástandinu leiddu til lagasetningar um eftirlit með ungmennum og því að stofnum var komið á laggirnar sem áttu að bregðast við vandanum sem unglingsstúlkur í ástandinu voru.

Hvernig tengdust þessar nýju stofnanir öðrum stofnunum sem ætlað var að fjalla um málefni barna og ungmenna? Hverjar voru skyldur barnaverndarnefnda þegar kom að ástandinu. Einnig velti Agnes því upp hvort skilgreina meg ástandsstúlkurnar sem vandræðaunglinga eða nánar til tekið hvort valdastofnanir hafi litið á þær sem slíkar.

Agnes Jónasdóttir er með MA- próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún lagt áherslu á að skoða ástandið út frá tengslum þess við sögu barnaverndar ásamt því að teygja sig inn á svið hinsegin sögu.

fimmtudagur, 27. feb 2020

Annar hádegisfyrirlestur vorsins: Og svo kom kaninn: Ástandið frá hinsegin sjónarhorni

Annar hádegisfyrirlestur vorsins verður haldinn þriðjudaginn 3. mars. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Hann er öllum opinn og aðgangur er ókeypis. Yfirskrift fyrirlestraraðarinnar er Blessað stríðið? Ísland sem hernumið land.

Særún Lísa Birgisdóttir þjóðfræðingur flytur fyrirlesturinn „Og svo kom Kaninn“ þar sem hún fer í saumana á ástandinu og hvaða áhrif það hafði á samfélag samkynhneigðra karlmanna á Íslandi. Í skugga ástandsins blómstraði annars konar ástand. Eftir að landið var hernumið opnuðust dyr inn í nýjan heim hjá fjölda manna sem fram til þessa höfðu lifað í einangrun og felum með kynhneigð sína.

Særún Lísa Birgisdóttir er með MA-próf í Þjóðfræði frá Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum horfir hún til þess hvernig hinir ýmsu jaðarhópar hafa birst í sögnum, þjóðtrú og orðræðu, með sérstakri áherslu á samkynhneigða.

 

mánudagur, 17. feb 2020

Illugi Jökulsson flytur fyrsta hádegisfyrirlestur vorsins

Á þessu ári eru áttatíu ár liðin frá því að Ísland var hernumið af Bretum. Jafnframt eru 75 ár frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Af því tilefni er yfirskrift vorfyrirlestraraðar Sagnfræðingafélagsins Blessað stríðið? Ísland sem hernumið land. Fyrirlestraröðin hefst þriðjudaginn 18. febrúar og stendur fram á vor. Óhætt er að lofa áhugaverðum erindum sem taka á þessu tímabili frá margvíslegu sjónarhorni; oft nýstárlegu.

Illugi Jökulsson flytur fyrsta fyrirlestur vorsins: Versti staður á jörðinni? Viðhorf hermanna og sjómanna Bandamanna til Íslands og Íslendinga.

Fyrirlesturinn er haldinn í sal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05. Hann er öllum opinn og aðgangur er ókeypis

mánudagur, 10. feb 2020

Sagnfræðinemar í vísindaferð

Félagar í Fróða – félagi sagnfræðinema komu í Gunnarshús á dögunum. Þangað voru sagnfræðinemar mættir í vísindaferð til Sögufélags, Sagnfræðingafélags Íslands og ReykjavíkurAkademíunnar.

Markús Þórhallsson, formaður Sagnfræðingafélags Íslands, kynnti starfsemi félagsins. Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir, framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar, greindi frá því sem þar fer fram. Hrefna Róbertsdóttir, forseti Sögufélags, og Brynhildur Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, kynntu starfsemi og útgáfu Sögufélags. Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Söguþings 2021, greindi frá því sem til stendur á þessu fjórða söguþingi sem haldið verður.

Sagnfræðinemar fengu veitingar og voru leystir út með bókagjöfum.

fimmtudagur, 9. jan 2020

Fyrirlestrar vorsins

Það styttist í að dagskrá hádegisfyrirlestra að vori verður kynnt. Fram að því getur fólk glöggvað sig á hádegisfyrirlestrum haustsins, horft á þá fyrirlestra sem það missti af eða rifjað upp atriði í fyrirlestrum sem það mætti á. Hér má sjá þá nær alla. Upptaka eins þeirra mistókst en hljóðupptaka verður sett inn við tækifæri.

mánudagur, 16. des 2019

Tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna

Félag íslenskra bókaútgefenda veitir Íslensku bókmenntaverðlaunin í janúar ár hvert. Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

Jón Viðar Jónsson
Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925 – 1965
Útgefandi: Skrudda

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
Lífgrös og leyndir dómar – Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi
Útgefandi: Vaka-Helgafell

Páll Baldvin Baldvinsson
Síldarárin 1867-1969
Útgefandi: JPV útgáfa

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir
Jakobína – saga skálds og konu
Útgefandi: Mál og menning

Unnur Birna Karlsdóttir
Öræfahjörðin – Saga hreindýra á Íslandi
Útgefandi: Sögufélag

Dómnefnd í flokki fræðibóka og rita almenns efnis skipuðu: Árni Sigurðsson, Kolbrún Elfa Sigurðardóttir og Knútur Hafsteinsson sem er formaður nefndar.

fimmtudagur, 12. des 2019

Tilnefningar til Fjöruverðlauna

Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna 2020, bókmenntaverðlauna kvenna voru kynntar 3. desember 2019. Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis.

Öræfahjörðin: Saga hreindýra á Íslandi eftir Unni Birnu Karlsdóttur
Jakobína: Saga skálds og konu eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur
Listin að vefa eftir Ragnheiði Björk Þórsdóttur

Dómnefnd skipuðu Dalrún J. Eygerðardóttir, Sóley Björk Guðmundsdóttir og Þórunn Blöndal. Tilgangur Fjöruverðlaunanna er að stuðla að aukinni kynningu á ritverkum kvenna og hvetja konur í rithöfundastétt til dáða. Einnig eru veitt verðlaun í flokki fagurbókmennta og flokki barna- og unglingabókmennta.

miðvikudagur, 27. nóv 2019

Síðasti hádegisfyrirlestur haustsins: Kirkjuvaldsstefnan og trúarleg orðræða á þjóðveldisöld

Sjöundi og síðasti hádegisfyrirlestur haustsins verður haldinn þriðjudaginn 3. desember. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Yfirskrift fyrirlestra haustsins er Trú og Samfélag.

Haraldur Hreinsson flytur fyrirlestur um upphaf kirkjuvaldsstefnunnar eða hinnar gregoríönsku siðbótar á Íslandi með hliðsjón af aðferðum menningarsögu.

Jafnan er litið svo á að Þorlákur Þórhallsson, biskup í Skálholti 1178-1193, hafi verið fyrsti fulltrúi kirkjuvaldsstefnunnar eða hinnar gregoríönsku siðbótar á Íslandi. Þó ekki sé vitað með fullri vissu í hverju nákvæmlega kröfur hans fólust, þá má ljóst vera að hann setti ýmis mál á dagskrá sem komu róti á þá kirkjuskipan sem fyrir var í landinu og stuðluðu að framgangi kirkjuvaldsstefnunnar. Kröfur Þorláks komu þó ekki fram í tómarúmi. Í trúarlegum textum á borð við stólræður og helgisögur sem varðveittir eru í handritum frá því um miðja 12. öld er að finna trúarlega orðræðu í samhljómi við þær kirkjupólitísku kröfur sem gerðar voru af forvígismönnum kirkjuvaldsstefnunnar. Fjallað verður um nokkur slík orðræðustef og athygli beint að samspili þeirra við kirkjupólitíska þróun tímabilsins. Því verður haldið fram að til að greina upphaf kirkjuvaldsstefnunnar sé ekki nóg að notast við hefðbundnar aðferðir persónu- og stofnanasögu heldur sé einnig æskilegt að grípa til aðferða menningarsögu. Af slíkum sjónarhóli má ljóst vera að jarðvegurinn fyrir framgang kirkjuvaldsstefnunnar var lagður strax á fyrri hluta 12. aldar með tilkomu trúarlegra texta á móðurmálinu uppfullum af eldfimum félagspólitískum hugmyndum.

Haraldur Hreinsson hefur lokið prófum í guðfræði frá Háskóla Íslands (2008 og 2009) og meistaraprófi frá Harvard háskóla (2011). Fyrr á þessu ári lauk hann doktorsprófi í sagnfræði frá háskólanum í Münster í Þýskalandi en þar starfaði hann við rannsóknarstofnunina Exzellenzcluster: Religion und Politik. Um þessar mundir vinnur hann að rannsókn styrktri af RANNÍs.

laugardagur, 23. nóv 2019

Lektorsstaða og nýdoktorastyrkir

Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands hefur auglýst stöðu lektors í sagnfræði lausa til umsóknar. Í auglýsingunni kemur fram að lektorsstaðan snýr að kennslu og rannsóknum á sviði erlendrar sögu síðari alda og kennslu í Hagnýtri menningarmiðlun. Umsóknarfrestur er til 6. janúar.

Undir lok síðasta mánaðar auglýsti Háskóli Íslands einnig allt að átta nýdoktorsstyrki til handa þeim sem lokið hafa doktorsprófi einhvern tímann á síðustu sjö árum (frá því í janúar 2014). Umsóknarfrestur um styrkina er til 2. desember.


This page


Rotationg image

RSS for entries. RSS for comments.

Powered by WordPress. Valid XHTML & CSS.