Skip to main content

„Þorskastríð Breta og Íslendinga 1958-1976. Hugleiðingar um ólíka þjóðarhagsmuni, ójafnað í hernaði, stjórnun fjölmiðla og vald stjórnvalda yfir herafla.“
Fyrirlestur í boði Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands og Sagnfræðingafélags Íslands í Þjóðminjasafni Íslands við Suðurgötu, föstudaginn 9. mars kl. 12:00-13:00. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill. Fyrirlesturinn verður á ensku.
Fyrirlesari er Andrew Welch, fv. kapteinn í breska sjóhernum, og höfundur nýrrar bókar um þorskastríðin, „The Royal Navy in the Cod Wars. Britain and Iceland in Conflict 1958-1976“. Welch gekk í breska sjóherinn 1968 og lét þar af störfum fyrir fjórum árum. Hann tók m.a. þátt í Falklandseyjastríðinu, vann í höfuðstöðvum ítalska flotans þegar Júgóslavía var í upplausn og flota- og flugráðgjafi (Naval and Air Adviser) við sendiráð Bretlands í Pakistan þegar árásirnar á tvíburaturnana og innrásin í Afganistan urðu og seinna Íraksstríðið hófst.
Eftir að Welch settist í helgan stein hefur hann ekki aðeins skrifað bók um þorskastríðin heldur gengið frá Kantaraborg til Rómar og siglt um höfin á eigin skemmtibát.
Bók Andrews Welch um breska sjóherinn í þorskastríðunum er fyrsta fræðirit Breta um þau átök og fengur að henni fyrir áhugamenn um íslenska samtímasögu. Sama gildir vitaskuld um fyrirlesturinn á föstudaginn.