Næstkomandi þriðjudag, þann 11. september, hefst hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands í 15. sinn. Yfirskrift haustmisseris er „Hvað er fátækt?“ og mun Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur ríða á vaðið með erindi sínu „Dísætur skortur – smávegis um sykur í sögunni“.
Fyrirlesturinn er haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12:05.
Dísætur skortur – smávegis um sykur í sögunni
Til forna var sykur eftirsótt krydd á borð við negul, múskat, pipar og saffran í Evrópu og var einungis á borðum hefðafólks og ríkisbubba. Sykurinn var undrameðal og eitt af náttúrulegum rotvarnarefnum sem völ var á.. Hann var einnig grunnur að stórkostlegri listsköpun færustu meistarakokka álfunnar. Á árunum eftir seinni heimstyrjöld náði sykurneysla Íslendinga himinhæðum og í dag er neyslan um eitt kíló á viku – á mann. Getur verið að slík neysla sé vísbending um skort? Í fyrirlestrinum staldrar Sólveig við á fimmta og sjötta áratug 20. aldar á Íslandi og veltir fyrir sér breytingum á matarræði með tilliti til mataruppskrifta í blöðum og tímaritum.
Fyrir hönd Sagnfræðingafélags Íslands,
Vilhelm Vilhelmsson