Skip to main content

Þriðjudaginn 2. febrúar heldur Ragnheiður Kristjánsdóttir hádegisfyrirlestur hjá Sagnfræðingafélaginu, sem hún nefnir „Vettvangur róttækra vinstri kvenna á fjórða og fimmta áratug tuttugustu aldar“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Þegar horft er á róttæka vinstri hreyfingu á Íslandi frá sjónarhóli hefðbundinnar stjórnmálasögu blasir við óvenju stór hreyfing (í alþjóðlegu samhengi) undir forystu karla sem sóttu styrk og eldmóð til Sovétríkjanna. Þetta er ekki saga kvenna og fljótt á litið virðist hreyfingin ekki hafa verið sérstaklega hliðholl konum. Engin kona settist á þing fyrir Kommúnistaflokkinn (1930–1938) og ein kona var kjörin á þing fyrir Sósíalistaflokkinn (1938–1968). Þetta var árið 1946 og þingmaðurinn Katrín Thoroddsen. Hún náði ekki endurkjöri í næstu kosningum og í stuttu máli sagt voru fáar konur í forystu róttækrar vinstri hreyfingar á Íslandi, að minnsta kosti framan af.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um Kommúnista- og Sósíalistaflokkinn frá sjónarhóli þeirra fjöldamörgu kvenna sem gengu til liðs flokkana á 4. og 5. áratugnum. Færð verða rök fyrir því að róttæk vinstri hreyfing hafi að mörgu leyti verið álitlegur vettvangur fyrir konur sem vildu berjast fyrir auknu jafnrétti kynjanna. Eins og annars staðar meðal evrópskra róttæklinga á þessum árum var þar haldið á loft ýmsum feminískum hugmyndum og stefnumálum. En það flækti málin að samhliða róttækninni þrifust innan hreyfingarinnar hefðbundnar staðalímyndir karla og kvenna. Það átti svo aftur sinn þátt í því að róttækar vinstri konur sóttu sér liðstyrk inn í þverpólitíska kvenréttindahreyfinguna.
Ragnheiður Kristjánsdóttir er dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur rannsakað þjóðernisstefnu, lýðræði og vinstri stjórnmál og vinnur nú að rannsóknarverkefni um stjórnmálaþátttöku íslenskra kvenna í kjölfar kosningaréttar.