Skip to main content

Þriðjudaginn 16. febrúar heldur Nanna Þorbjörg Lárusdóttir hádegisfyrirlestur hjá Sagnfræðingafélaginu, sem hún nefnir „„Í þarfir bindindisins“. Góðtemplarastúkur og áhrif mótandi orðræðu. Félagsleg og hugmyndaleg áhrif inn á 20. öld“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Góðtemplarareglan var fyrirferðarmikil í íslensku samfélagi á ofanverðri nítjándu öld og á fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu. Stúkur spruttu upp víða um land og starfsemin breiddist út líkt og eldur í sinu. Markmið templara var „útrýming áfengisnautnarinnar“ og meginbaráttumálið aðflutningsbann á áfengi, sem náðist fram með löggjöf árið 1909. Í erindinu er það orðræðan, áhrifamáttur hennar á einstaklinginn og samfélagið sem er í brennidepli í ljósi kenninga um stjórnvaldstækni og lífvald. Fjallað verður um áhrifin af stúkustarfinu og bindindisbaráttunni í félagslegum og hugmyndalegum skilningi: Áhrifin á upphaf íslenskrar verkalýðshreyfingar og líkindin með stúkunum og fyrstu verkalýðsfélögunum, einnig áhrifin af orðræðu stúkubræðra á stúkusystur og réttindabaráttu kvenna, en í stúkum störfuðu konur á yfirlýstum jafnréttisgrundvelli með körlum. Að lokum verður fjallað um orðræðu templara um áfengið sem „eitur“ og samfélagsvá og áhrif hennar á viðhorf Íslendinga til áfengismála inn á tuttugustu öld.
Nanna Þorbjörg Lárusdóttir er sagnfræðingur og starfandi framhaldsskólakennari. Hún lauk meistaraprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands haustið 2014.