Þriðjudaginn 12. mars flytur Hjörleifur Stefánsson hádegisfyrirlesturinn „Byggingarsaga Hegningarhússins við Skólavörðustíg í ljósi betrunarheimspeki 19. aldar“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur hádegisfyrirlesturinn í samvinnu við Þjóðminjasafnið en hann er hluti af fyrirlestraröð félagsins, sem þetta misserið hefur yfirskriftina „Saga réttarfars og refsinga“.
Í upphafi 19. aldar varð alger bylting í öllu sem laut að fangelsismálum og refsingum á vesturlöndum. Heimspekingar og samfélagsfrömuðir tóku að ræða fangelsismál og mannúðarsjónarmið settu mark sitt á þá stefnumótun sem átti sér stað. Athyglin beindist í vaxandi mæli að því hvernig haga mætti fangelsisbyggingum og fangelsisvistinni þannig að fangarnir yrðu mótaðir á jákvæðan hátt til að verða betri menn. Betrun varð mikilvægari en refsing. Í byggingarsögu Hegningarhússins birtast byltingarkenndar samfélagsbreytingar utan úr hinum stóra heimi sem teygðu anga sína hingað til lands þótt aðstæður yllu því að hér hlutu þær að verða með sérstökum hætti.
Hjörleifur Stefánsson er menntaður sem arkitekt en hefur að mestu starfað að varðveislu og rannsóknum á íslenskum byggingararfi frá því um 1975. Hann hefur skrifað bækur um íslenska byggingarsögu og fjallað um siðfræði byggingarlistar.