Skip to main content

Viðurkenning Hagþenkis var veitt 6. mars í Þjóðarbókhlöðunni við hátíðlega athöfn, hana hlaut Kristín Svava Tómasdóttir fyrir ritið, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar, sem Sögufélag gaf út. Í ályktunarorðum Viðurkenningaráðsins sagði um ritið: „Brautryðjandaverk um sögu kláms og kynverundar á Íslandi sem byggir á afhjúpandi rannsóknum á vandmeðförnu efni.“
Sagnfræðingafélagið óskar Kristínu innilega til hamingju með viðurkenninguna.
Brot úr þakkarræðu Kristínar: „Að skilgreina klám snýst um að draga mörkin. Bandaríski bókmenntafræðingurinn Walter Kendrick skrifaði að saga kláms á 20. öld hefði verið „yfirþyrmandi og vonlaus viðleitni við að sortera verðmætin frá ruslinu“. Ruslið – það var það sem lenti í klámflokknum. Eitt af því sem er svo heillandi við klámhugtakið og sögu þess er hversu sveigjanlegt það er, en þó alltaf svo neikvætt. Stund klámsins lýkur á orðunum „það eina sem fólk virtist almennt vera sammála um var að klám væri vont“; ég fór fram og til baka með þessi lokaorð, fannst þau ekki alveg nógu fjörleg, en á endanum var ekkert sem lýsti efni bókarinnar betur. Að draga mörkin milli kláms og ekkikláms er að draga mörkin milli fegurðar og ljótleika, smekks og smekkleysis, ástar og ofbeldis, hreinleika og sóðaskapar, fágunar og grófleika. Það er hátt í áratugur síðan ég fór fyrst að hugsa um sögu kláms en fyrir mér er þetta forsmáða og gildishlaðna fyrirbæri ennþá algjörlega ómótstæðilegt sagnfræðilegt viðfangsefni.“