Þriðjudaginn 9. apríl flytur Helga Kress hádegisfyrirlesturinn „Kona tekin af lífi – Lesið í dómsskjöl Natansmála og réttarhöldin yfir Agnesi í bókmenntum, samfélagi og sögu“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur hádegisfyrirlesturinn í samvinnu við Þjóðminjasafnið en hann er sá síðasti í fyrirlestraröð félagsins, sem þetta misserið hefur yfirskriftina „Saga réttarfars og refsinga“.
Þann 21. júlí 1828 var af sýslumanni Húnvetninga, Birni Blöndal, kveðinn upp dauðadómur yfir vinnukonunum Agnesi Magnúsdóttur, 33 ára, og Sigríði Guðmundsdóttur, 17 ára, fyrir hlutdeild í morði á húsbónda þeirra Natani Ketilssyni og gesti hans á Illugastöðum á Vatnsnesi að kvöldi 13. mars 1828.
Morðinginn var nágranni þeirra, bóndasonurinn Friðrik Sigurðsson, 18 ára, sem einnig hlaut dauðadóm. Skyldu þau öll hálshöggvin með exi og höfuðin síðan sett á stjaka öðrum til viðvörunar. Dómarnir voru staðfestir svo til óbreyttir í Landsyfirrétti og Hæstarétti.
Agnes og Friðrik voru tekin af lífi, hálshöggvin, við Þrístapa í Vatnsdalshólum 12. janúar 1830, en dauðadómi Sigríðar var breytt með konungsúrskurði í ævilangt fangelsi í Kaupmannahöfn, þar sem hún lést fáum árum síðar.
Aftaka þeirra Friðriks og Agnesar var sett upp sem sýning, með upphækkuðum aftökupalli og fjölda áhorfenda. Var Friðrik höggvinn fyrst en Agnes strax á eftir. Var aftaka hennar sú síðasta á Íslandi.
Um svokölluð Natansmál hefur mikið verið skrifað, bæði af sagnaþáttum og skáldskap, sem ýmist byggja á ótraustum munnmælum og/eða hvert á öðru. Flest ganga þessi verk út frá ástarsambandi Agnesar og Natans og afbrýðisemi hennar þegar hann hafnaði henni fyrir Sigríði sem aftur á að hafa elskað Friðrik og hann hana.
Í hausthefti Sögu 2013 birtist tímamótagrein Eggerts Þórs Bernharðssonar, „Friðrik, Agnes, Sigríður og Natan” um heimildagrunn morðmálsins á Illugastöðum, þar sem hann m.a. sýnir fram á að meint ástarsamband milli þeirra Agnesar og Natans eigi sér enga stoð í frumheimildum, en rekur morðið til skapvonsku hans og harðstjórnar á heimili.
Í fyrirlestrinum verður gengið út frá þeim heimildagrunni sem Eggert byggir á, að viðbættri grein Helgu Kress „Eftir hans skipun“ í Sögu, vorhefti 2014, þar sem hún, frá kynjafræðilegu sjónarhorni, gengur lengra í túlkun og rekur ástæður morðsins til kynferðislegs ofbeldis húsbóndans gegn vinnukonum sínum.
Eftir að þessar greinar birtust var málið „endurupptekið“ á vegum Lögfræðingafélags Íslands í „sýndaréttarhöldum“ á söguslóðum, nánar tiltekið í Félagsheimilinu á Hvammstanga 9. september 2017, og kveðinn upp dómur.
Var sá harðasti yfir Agnesi. Mun Helga fjalla um þennan dóm ásamt því að farar nánar í upprunalegu dómsskjölin og vitnisburð sakborninganna Agnesar og Sigríðar, sem ekki var hlustað á, og tengja kenningum um réttarhöld yfir konum. Þá mun hún víkja að lýsingum á Agnesi í bókmenntum og öðrum frásögnum, allt frá Espólín til Hönnuh Kent (Burial Rites, 2013 ) þar sem segja má að Agnes sé ítrekað tekin af lífi.
Helga Kress er prófessor emeritus í bókmenntafræði við hugvísindadeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hennar er íslensk bókmenntasaga og íslensk bókmenntahefð að fornu og nýju frá kvenna- og kynjafræðilegu sjónarhorni. Hún er brautryðjandi í femínískum bókmenntarannsóknum hér á landi og einn af okkar mikilvirkustu og áhrifamestu bókmenntafræðingum.