Þriðjudaginn 4. mars flytur Sigrún Sigurðardóttir sagnfræðingur fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands sem haldin er í samstarfi við Borgarfræðasetur. Erindið nefnist „Fruma í borgarlíkama. Um Walter Benjamin og Paul Virilio“. Fundurinn fer fram í Norræna húsinu og stendur frá kl. 12:05 til 13:00. Hann er opinn öllu áhugafólki um sögu og skipulagsmál.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um einstaklinginn sem ferðast um í nútímaborginni þar sem vélrænar og skilvirkar athafnir eru hafðar að leiðarljósi. Sjónum verður beint að því hvernig skilvirknin hefur orðið til þess að borgarbúar fjarlægjast hvern annan, einkum vegna þess að þeim svæðum í borgarlandslaginu fer óðum fækkandi þar sem fólk getur komið saman í þeim tilgangi að „láta sér leiðast“ og sjá og hlusta á það sem samferðarfólk þess hefur að segja. Á undanförnum árum virðast arkitektar og skipulagsfræðingar þó hafa veitt þessari þörf fólks til að draga sig í hlé frá skilvirkni og hraða stórborgarlífsins aukna athygli. Þeir hafa brugðist við henni með því að skapa rými í borgarlíkamanum þar sem borgarbúar geta komið saman og deilt reynslu sinni með öðrum, svæði sem í fyrirlestrinum verða nefnd „rými frásagnarinnar“. Einnig verður þörf borgarbúans fyrir það næði, sem þessi rými skapa, tengd við hugmyndir þýska heimspekingsins Walters Benjamins og franska menningarrýnisins Pauls Virilios um nútímann og stórborgina. Í framhaldi af því verður athyglinni beint að því hvort þessar nýju áherslur í borgarskipulagi endurspeglist í þeirri borg sem myndar umgjörð um líf okkar flestra – Reykjavík.
Sigrún Sigurðardóttir lauk BA-prófi í sagnfræði frá HÍ (1998) og vinnur nú að lokaritgerð til cand.mag.-prófs í menningarfræðum (moderne kultur og kulturformidling) við Kaupmannahafnarháskóla. Í náminu hefur hún lagt áherslu á að rannsaka hvernig ólíkar fræðigreinar, s.s. bókmenntafræði, listfræði og arkitektúr, taka á sambandi einstaklingsins við umhverfi sitt. Lokaritgerðin er um ljósmyndir, reynslu og minni, með sérstakri áherslu á ljósmyndir sem storka viðteknum hugmyndum og orðræðu einstaklinga og stærri samfélagshópa. BA-ritgerð hennar fjallaði um fjölskyldubréf frá 19. öld og í framhaldi af því tók hún saman bókina „Elskulega móðir mín, systir, bróðir, faðir og sonur“ (1999) fyrir Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. Eftir hana liggja einnig nokkrar greinar, þ.á m. ein sem tengist efni fyrirlestursins beint (Lesbók Mbl 12. maí 2001).