Björk Ingimundardóttir skjalavörður lét af störfum hjá Þjóðskjalasafni Íslands fyrir skemmstu. Þar hafði hún unnið í rúmlega hálfa öld og þó svo Björk færi á eftirlaun 2013 starfaði hún áfram sem gestafræðimaður á safninu þar til í lok maí.
Björk var kosin heiðursfélagi á aðalfundi Sagnfræðingafélags Íslands 2011 þegar félagið fagnaði 40 ára afmæli sínu.
Síðasta verk Bjarkar á Þjóðskjalasafni var að taka saman ritið Mál og vog, skýringarrit um mælieiningar fyrri alda.
Af vef Þjóðskjalasafns:
Síðustu árin hefur hún einkum unnið að vefnum Orðabelg – Sögulegu hugtakasafni Þjóðskjalasafns Íslands en á löngum ferli sínum sem skjalavörður í Þjóðskjalasafni Íslands hefur Björk grafist fyrir um innihald ýmissa hugtaka og fyrirbrigða, skýrt orð og orðasambönd og fundið merkingar tákna og skammstafana í margvíslegum skjölum og gögnum sem hún hefur farið höndum um og rýnt í um dagana. Þessari þekkingu hefur hún haldið samviskusamlega til haga og er hún birt á vefnum.
Eitt af flóknari viðfangsefnum Bjarkar síðastliðin ár hefur verið að leita uppi og skrifa skýringar á mælieiningum fyrri alda. Hennar síðasta verk á Þjóðskjalasafni var að taka saman skýringarit um þessi efni og við þetta tækifæri var gefið út ritið Mál og vog. Mælieiningar fyrri alda, bæði á prenti og í rafrænni útgáfu. Ritið er opið og aðgengilegt á vef Þjóðskjalasafns og má lesa eða sækja hér. Allar orðskýringarnar eru jafnframt aðgengilegar í Orðabelg og verða vafalítið til að létta mörgum fræðimanninum lífið.
Mynd sem fylgir fréttinni er frá Þjóðskjalasafni Íslands.