Skip to main content

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands fer fram laugardaginn 8. mars í húsi Sögufélags við Fischersund. Fundurinn hefst kl. 16.

Dagskrá:

  1. Ársskýrsla kynnt og lögð fram til samþykktar.
  2. Endurskoðaðir reikningar kynntir og lagðir fram til samþykktar.
  3. Lagabreytingar (engar tillögur að lagabreytingum hafa borist stjórn félagsins).
  4. Kjör stjórnar. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja fulltrúa í Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga til eins árs.
  5. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
  6. Önnur mál.

Að loknum aðalfundarstörfum verður gert stutt hlé en kl. 17 mun Íris Ellenberger, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands, flytja erindi sem nefnist „Íslandsmyndir 1916-1966. Myndefni, ímyndir og raunveruleiki“. Í útdrætti segir:

“Íslandsmyndir er óformlegt heiti á kvikmyndum sem eiga það flestar sameiginlegt að gera helstu meintu einkennum Íslands og Íslendinga skil, iðulega með erlenda áhorfendur í huga. Þessar myndir hafa nú verið framleiddar í rúma öld og teljast að vissu leyti arftakar bæði ferðabóka og svokallaðra þjóðasýninga. Þegar á síðari hluta 20. aldar tók markaðsvædd ferðaþjónusta þessar myndir í þjónustu sína og því mætti kalla þær fyrstu landkynningarmyndböndin. Þrátt fyrir að myndirnar séu mjög fjölbreyttar er varðar framsetningu, tækni, tíma, markmið og aðstandendur þá er sú ímynd, eða öllu heldur þær ímyndir sem myndirnar varpa fram nokkuð stöðugar en taka einnig vissum breytum eftir því sem bæði kvikmyndatækninni og íslensku samfélagi fleytir fram og skapar nýja möguleika og nýjar þarfir sem kvikmyndamiðilinn þarf að sinna. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þær Íslandsmyndir sem varðveittar eru í Kvikmyndasafni Íslands og framleiddar voru á árunum 1916-1966 með sérstaka áherslu á þau leiðarstef og ímyndir sem koma fyrir í sífellu. Kannað verður hvernig ímyndirnar breytast eða haldast og hvernig kvikmyndaformið bæði bæði mótar þær og takmarkar. Þá verður fjallað um eðli ímynda og tengsl þeirra við hugmyndir um raunsæi og sannleika.”

Eftir aðalfundinn er stefnt að því að fundargestir og aðrir sem vilja snæði saman kvöldverð á veitingastað í miðbænum, eins og gert hefur verið undanfarin ár. Staður og tími verður auglýst á Gammabrekku og heimasíðu félagsins þegar nær dregur.