Skip to main content

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands verður haldinn í húsi Sögufélags við Fischersund í Reykjavík laugardaginn 19. mars næstkomandi og hefst kl.16:30.
Dagskrá:
* Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar
* Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar
* Lagabreytingar (engar tillögur að lagabreytingum hafa borist stjórn félagsins)
* Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga og tveggja fulltrúa í Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga til eins árs
* Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár
* Önnur mál
Að loknum aðalfundarstörfum mun Margrét Gestsdóttir sagnfræðingur flytja erindi er nefnist „Sálarheill. Hugmyndir Íslendinga á miðöldum um afdrif þeirra eftir dauðann.“ Skipulögð dagskrá á vegum félagsins heldur svo áfram að loknum aðalfundi. Alþjóðlegt hlaðborð verður í boði á veitingastaðnum Cafe Kultura sem er í Alþjóðahúsinu, Hverfisgötu 18 (gegnt Þjóðleikhúsinu). Borð munu þar svigna undan alls kyns útlenskum kræsingum og kostar aðgangur að þeim aðeins 1.200 krónur á mann. Sagnfræðingar eru því hvattir til að fjölmenna á Café Kultura eftir aðalfundinn og njóta fjölbreyttrar matargerðar í góðra vina hópi.
Fólk þarf að skrá sig fyrirfram, hjá Guðna Th. Jóhannessyni (895-2340), og í síðasta lagi miðvikudaginn 16. mars. Húsið opnar um kl. 18:30 en reiknað er með því að borðhald hefjist kl. 19:00. Fólki er auðvitað velkomið að mæta til matarins þótt það komist ekki á aðalfundinn. Og sama gildir um síðasta lið kvöldsins. Um kl. 20:00 færum við okkur eilítið um set í Alþjóðahúsinu og haldin verður örstutt kynning á landsbyggðarráðstefnunni á Eiðum, 3.-5. júní næstkomandi. Bráðabirgðadagskrá verður kynnt og myndir sýndar frá Eiðum og öðrum stöðum sem til stendur að heimsækja eystra. Rétt er að nefna að þótt dagskrá sé að taka á sig lokamynd kemur enn til greina að bæta við erindum, einkum ef þau tengjast meginþema ráðstefnunnar: Erlend áhrif á Íslandi: Austurland í brennidepli.
Einnig er sjálfsagt að benda á að á Eiðum gefst frábært tækifæri til að hverfa aðeins úr ys og þys borga og bæja og stilla saman fræðilega strengi. Þeir, sem vilja skrá sig á ráðstefnuna, geta gert það hjá Guðna Th. Jóhannessyni og Svavari Hávarðssyni (899 9998). Að hinni stuttu ráðstefnukynningu lokinni er síðan kjörið að halda hópinn áfram á Café Kultura þar sem hægt verður að gæða sér á ýmsum veigum, innlendum sem erlendum. Fjölmennum!