Skip to main content

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands var haldinn 12. mars 2025 kl. 20 í Neskirkju. Á aðalfundi var Guðjón Friðriksson kosinn heiðursfélagi sem var vel verðskuldað. Að aðalfundarstörfum loknum flutti Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og fyrrum forseti erindið „Til hvers erum við að þessu? Gildi sögunnar frá sjónarhóli sagnfræðinga og þjóðarleiðtoga“. 

Miklar breytingar urðu á stjórn félagsins þar sem Anna Agnarsdóttir, Arnór Gunnar Gunnarsson, Kristbjörn Helgi Björnsson, Leifur Reynisson og Valur Gunnarsson hættu í stjórn félagsins. Ragnhildur Anna Kjartansdóttir tók við formennsku félagsins og Agnes Jónasdóttir hélt áfram. Nýir stjórnarmeðlimir voru kjörnir sem voru Auður Þóra Björgúlfsdóttir, Brynjólfur Þór Guðmundsson, Guðmundur Hálfdanarson, Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson og Þórunn Þorsteinsdóttir. Nýir endurskoðendur reikninga voru kjörnir sem eru Ása Ester Sigurðardóttir og Arnór Gunnar Gunnarsson. Fulltrúar félagsins í landsnefnd Sagnfræðinga, Ragnhildur Anna Kjartansdóttir og Markús Þ. Þórhallsson voru endurkjörin.

Arnór Gunnar Gunnarsson, fráfarandi formaður, og Ragnhildur Anna Kjartansdóttir, nýr formaður.

Hefðbundin aðalfundarstörf fóru fram og fylgir hér skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2024–2025.

Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands var kjörin á aðalfundi 20. mars 2024 sem haldinn var í húsnæði Reykjavíkurakademíunnar á bókasafni Dagsbrúnar. Ása Ester Sigurðardóttir gaf ekki kost á sér á ný en í stað hennar var Agnes Jónasdóttir kjörin. Aðrir stjórnarmenn og formaður höfðu verið kjörin árið áður og áttu eitt ár eftir af kjörtímabili sínu.

Á aðalfundinum voru Sólveig Ólafsdóttir og Kristín Svava Tómasdóttir kjörnar skoðunarmenn reikninga. Markús Þ. Þórhallsson og Ragnhildur Anna Kjartansdóttir héldu áfram setu fyrir hönd félagsins í landsnefnd sagnfræðinga.

Ný stjórn skipti með sér verkum á fyrsta fundi. Ákveðið var að Ragnhildur Anna Kjartansdóttir yrði varaformaður, Agnes Jónasdóttir tæki við sem gjaldkeri, Leifur Reynisson yrði ritari, Valur Gunnarsson ritstjóri miðla og Anna Agnarsdóttir og Kristbjörn Helgi Sigurðsson meðstjórnendur. Arnór Gunnar Gunnarsson hélt áfram sem formaður.

Fyrsti viðburður starfsársins var haldinn 21. maí í Neskirkju. Hann bar yfirskriftina „Forseti: til hvers?“ og var þar rætt um sögu og eðli forsetaembættisins. Til máls tóku Guðmundur Hálfdanarson, sagnfræðiprófessor, Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor og rektor HR, og Markús Þ. Þórhallsson, sagnfræðingur og fréttamaður.  Tilefnið var forsetakosningar sem fóru fram 11 dögum síðar en fjórir af tólf frambjóðendum mættu á fundinn.

Næsti viðburður var haldinn 30. október. Umfjöllunarefnið var „Lýðræði í hættu?“ og frummælendur voru Jón Ólafsson, prófessor í menningarfræði, Hulda Þórisdóttir, prófessor í stjórnmálafræði, Valur Gunnarsson, sagnfræðingur og rithöfundur, og Pontus Järvstad, doktor í sagnfræði. Fjallað var m.a. um kosningar, lýðræði og uppgang popúlisma.

Guðni Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði og fyrrverandi forseti lýðveldisins, hélt erindi.

Hinn 28. nóvember hélt félagið bókakvöld í samvinnu við Sögufélag. Fjallað var um fjórar nýlegar sagnfræðitengdar bækur og ræddu utanaðkomandi rýnar við höfundana. Bækurnar voru Ástand Íslands um 1700, ritstjóri Guðmundur Jónsson, sem Jón Kristinn Einarsson rýndi, Strá fyrir straumi eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur sem Bragi Þorgrímur Ólafsson rýndi, Börn í Rekjavík eftir Guðjón Friðriksson sem Ása Ester Sigurðardóttir rýndi og loks Óli K eftir Önnu Dröfn Ágústsdóttur sem Inga Lára Baldvinsdóttir rýndi. Bókakvöldið var haldið í Gunnarshúsi og var vel mætt.

Félagið hélt fund 19. febrúar undir yfirskriftinni „brautryðjendur í hópi kvenna“. Þar voru frummælendur þær Auður Eir Vilhjálmsdóttir prestur, Kristín Svava Tómasdóttir sagnfræðingur, Rakel Adolphsdóttir, sagnfræðingur og fagstjóri Kvennasögusafns, og Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur á Leikminjasafni. Var þess minnst að 50 ár væru liðin á árinu 2025 frá kvennaárinu 1975. Fresta hafði þurft fundinum um tvær vikur vegna veðurs. 

Þá áformaði félagið fund um „Grænland á tímamótum“ 6. mars en vegna forfalla frummælenda þurfti að fresta honum til 18. mars, eftir aðalfund. Hann verður því haldinn á næsta starfsári. Ráðgert er að þar taki til máls Linda Lyberth Kristiansen, sérfræðingur í málefnum frumbyggja norðurskautssvæðisins, Federica Scarpa, doktorsnemi í lögfræði, Sumarliði R. Ísleifsson, dósent í hagnýtri menningarmiðlun og Bjarni Ólafsson, framhaldsskólakennari í sögu.

Einnig hóf stjórn skipulagningu á vorferð félagsins 10. maí næstkomandi. Mun þá Friðþór Eydal leiðsegja gestum um hernámsslóðir en þann dag verða 85 ár liðin frá upphafi hernáms Breta hér á landi. 

Í september sendi stjórn bréf til sagnfræðinga sem útskrifast höfðu úr BA-námi á síðastliðnu ári. Var þetta fyrsta bréfasendingin eftir að stjórn ákvað að taka þær upp og yrðu þær hér eftir með reglulegu millibili. Ætlunin með bréfinu er að óska nýútskrifuðum sagnfræðingum til hamingju með áfangann og

Hinn 19. nóvember var haldinn fyrsti árlegi samráðsfundur menningar- og viðskiptaráðherra með fagfélögum í safnastarfi. Kveðið er á um slíka fundi í safnalögum sem breytt var árið 2023 í kjölfar funda ráðherra með fulltrúum fagfélaganna. Formaður sat fundinn fyrir hönd Sagnfræðingafélagsins.

Þá voru gerðar ýmsar lagfæringar á vefsíðu félagsins á árinu og uppsetningu breytt til að endurspegla betur starfsemi félagsins og frekari upplýsingar gerðar aðgengilegar.