Á fundi Sagnfræðingafélags Íslands þann 23. febrúar sl. um aðgengi að heimildum á söfnum, var samþykkt eftirfarandi ályktun sem Bragi Þorgrímur Ólafsson bar upp fyrir hönd stjórnar félagsins:
Fundur Sagnfræðingafélags Íslands haldinn á Þjóðskjalasafni 23. febrúar 2005 ítrekar eftirfarandi ályktun sem samþykkt var á málþingi félagsins þann 1. apríl árið 1989:
Mikilvæg forsenda fyrir rannsóknum í sagnfræði er að fræðimenn hafi aðgang að góðum skjalasöfnum. Góð skjalavarsla er einnig hornsteinn í stjórnsýslu ríkisins. Í áraraðir hefur dregist að útbúa Þjóðskjalasafni viðunandi húsnæði. Með því að takmarka mjög fjárframlög til Þjóðskjalasafns er komið í veg fyrir að það geti starfað samkvæmt lögum og gegnt hlutverki sínu. Þessi stefna er ekki aðeins óhagkvæm fyrir ríkið, hún kemur einnig í veg fyrir að hægt sé að stunda margvíslegar rannsóknir á sögu og menningu þjóðarinnar. Málþing Sagnfræðingafélags Íslands hvetur ríkisstjórnina til að útvega Þjóðskjalasafni viðunandi rekstrarfé og ganga endanlega frá húsnæði þess við Laugaveg 162. Á þann hátt auðveldar hún stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og leggur þýðingarmikið lóð á vogaskálar íslenskrar menningar.
Upphaflega ályktunin var samþykkt á málþingi um byggðasögu sem félagið stóð fyrir þann 1. apríl árið 1989 og fór fram í húsakynnum Þjóðskjalasafns. Magnús Guðmundsson sagnfræðingur bar upp ályktunina sem stjórn félagsins hafði tekið saman og var hún samþykkt án mótatkvæða, og var send í kjölfarið til þingmanna og fjölmiðla (sjá Fréttabréf Sagnfræðingafélags Íslands 7. árg. 4. tbl. apríl 1989, bls. 6.). Stjórn félagsins ákvað að bera fram þessa ályktun til ítrekunar nú í ljósi þess að efni hennar á við enn þann dag í dag, sextán árum eftir að hún var samþykkt.