Skip to main content

Starf Sagnfræðingafélagsins hefur verið með hefðbundnu sniði á liðnu starfsári.
Sem fyrr eru hádegisfyrirlestrar félagsins veigamesti liðurinn í starfi þess. Hádegisfyrirlestrar vorannar 2018 voru helgaðir sögu byggða og bæja og voru sjö talsins.
Hjörleifur Stefánsson flutti erindi um torfbæi tómthúsmanna í Reykjavík á 19. öld, Vilhelm Vilhelmsson fjallaði um byggðasögu Borðeyrar við Hrútafjörð, Anna Dröfn Ágústsdóttir og Guðbrandur Benediktsson fjölluðu um aðferðafræði safna og vinnu sagnfræðinga við nýja grunnsýningu Sjóminjasafnsins í Reykjavík, Arnþór Gunnarsson flutti erindi um sögu Reykjavíkurflugvallar og deilur um hann, Óðinn Melsted fjallaði um umskiptin frá húshitun með olíu og kolum til jarðvarma, Íris Ellenberger fjallaði um menningarleg átök og samblöndun í Reykjavík á fyrstu áratugum 20. aldar og loks flutti Haraldur Sigurðsson erindi um tillögur að bæjarskipulagi á Íslandi 19211938 og byggingararf íslensks þéttbýlis.
Fyrir hádegisfyrirlestra haustsins 2018 var ákveðið að þemað yrði „hörmungar“, með vísun til allra þeirra erfiðleika sem settu mark sitt á fullveldisárið 1918 hundrað árum fyrr, og þótti þemað vera sérlega djarft og skemmtilegt.
Sex ólík erindi voru flutt um söguleg áföll og þrengingar: Valur Gunnarsson fjallaði um seinni heimsstyrjöldina, Guðmundur Jónsson fjallaði um orsakir hungursneyða á Íslandi, Erla Dóris Halldórsdóttir og Magnús Gottfreðsson fluttu erindi um áhrif spænsku veikinnar á barnshafandi konur á Íslandi, Atli Antonsson fjallaði um menningarsögu eldgosa á Íslandi, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir fluttu erindi um orðræður um HIV á Íslandi og loks fjallaði Vilborg Auður Ísleifsdóttir um hungursneyðir og hremmingar á 16. öld.
Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins eru skipulagðir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og fara fram í fyrirlestrasal safnsins. Fyrirlestrar ársins 2018 hafa sem fyrr verið vel sóttir en einnig er greinileg eftirspurn eftir upptökunum af þeim sem settar eru inn á heimasíðu félagsins. Félagið fjárfesti í nýju upptökutæki á árinu sem mun vonandi reynast vel.
Síðasti aðalfundur Sagnfræðingafélagsins var haldinn hér í sal Þjóðskjalasafnsins þann 13. mars 2018. Að loknum aðalfundarstörfum voru kynnt tvö fræðiverk sem tilnefnd voru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017: Stórvirkið Líftaug landsins. Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2010 eftir Helga Þorláksson, Önnu Agnarsdóttur, Guðmund Jónsson, Gísla Gunnarsson, Helga Skúla Kjartansson og Halldór Bjarnason, og Leitin að klaustrunum. Klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur, en fyrir bók sína hlaut Steinunn einnig Viðurkenningu Hagþenkis.
Hrafnkell Lárusson ritari gekk úr stjórninni á fundinum en í hans stað var kjörin í stjórnina Íris Gyða Guðjónsdóttir, sem síðan hefur verið ritari og skjalavörður félagsins.
Skömmu eftir aðalfundinn, þann 20. mars, stóð Sagnfræðingafélagið ásamt Sögufélagi og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir minningarþingi um Björn Þorsteinsson sagnfræðing í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli hans.
Þingið fór fram í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur. Voru þar flutt mörg stutt erindi um líf og störf Björns, veittur styrkur úr Sagnfræðisjóði dr. Björns Þorsteinssonar og loks boðið upp á léttar veitingar, en Kristín Svava Tómasdóttir, formaður Sagnfræðingafélagsins, var fundarstjóri.
Skömmu fyrir síðasta aðalfund eignaðist félagið loksins, og þótt fyrr hefði verið, eigið netfang, sagnfraedingafelagid@gmail.com, og hefur það reynst hið þægilegasta fyrirkomulag við allt utanumhald og útdeilingu verkefna.
Sú ákvörðun var síðan tekin á starfsárinu að setja áform um útgáfu rafræns fréttabréfs, sem rædd hafði verið í mörg ár innan stjórnarinnar, til hliðar, en láta frekar reyna á að virkja heimasíðu félagsins og setja ekki bara inn fréttir af viðburðum á vegum félagsins sjálfs heldur einnig af vettvangi sagnfræðinnar almennt, svo sem styrkjum og verðlaunum sem veitt eru sagnfræðingum og af framlagi sagnfræðinga til dæmis á hugvísindaþingi Háskóla Íslands. Þessum fréttum er síðan deilt jafnóðum á Facebook-síðu félagsins.
Þessi tilraun hefur gefist vel og umferð um Facebook-síðuna hefur verið meiri en áður.
Loks má nefna að Sagnfræðingafélagið hefur nú tekið höndum saman við tímaritið Sögu og ReykjavíkurAkademíuna um að endurvekja bókakvöldið vinsæla eftir nokkurra ára hlé. Það mun fara fram í sal ReykjavíkurAkademíunnar í Þórunnartúni 2 næstkomandi miðvikudag, 3. apríl klukkan 20:00, og verður þar fjallað um fimm spennandi ný sagnfræðiverk.
Við vonumst til að þetta verði upphafið bæði að farsælu áframhaldi árlegs bókakvölds og auknu samstarfi við þessa góðu samstarfsaðila.
Fjórir stjórnarmenn hverfa úr stjórn félagsins á þessum aðalfundi: Rakel Adolphsdóttir vefstjóri, Gunnar Örn Hannesson meðstjórnandi, Hjördís Erna Sigurðardóttir varaformaður og Kristín Svava Tómasdóttir formaður. Ég þakka samstarfsfólki mínu síðustu ár kærlega fyrir gott og lærdómsríkt samstarf og veit að félagið verður eftir sem áður í öruggum höndum.
Kristín Svava Tómasdóttir