Þriðjudaginn 18. febrúar flytur Sigríður Björk Jónsdóttir sagn- og listfræðingur fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands sem haldin er í samstarfi við Borgarfræðasetur. Erindið nefnist „Borg minninganna“. Fundurinn fer fram í Norræna húsinu og stendur frá kl. 12:05 til 13:00. Hann er opinn öllu áhugafólki um sögu og skipulagsmál.
Í fyrirlestrinum verður m.a. fjallað um hugmyndir ítalska arkitektsins Aldo Rossi um hið „sögulega“ form og það hvernig fortíð og sameiginlegar minningar og reynsla íbúa móta borgina og framtíð hennar. Rossi sér borgina fyrir sér sem lifandi form og heldur því fram að sögu borgarinnar sé að finna í formgerðinni, en einnig í einstökum einingum innan hennar, byggingum og skipulagi, sem jafnframt hafa sína eigin formgerð. Samkvæmt þessu er saga hverrar einingar, hvort sem það er borgarhluti eða bygging, samofin notkun hennar gegnum tíðina en ekki aðeins tengd upphaflegu hlutverki þeirra.
Út frá þessum hugmyndum verður fjallað um Reykjavík og hvaða hlutverk fortíð hennar og saga spilar í borgarmynduninni og þróun byggingarlistar. Reynt verður að svara spurningum eins og hvort nauðsynlegt sé að varðveita sérstaklega sögu borgarinnar, eða einstakra hluta hennar, eða hvort leyfa eigi henni að þróast á eðlilegan og óhindraðan hátt, og treysta því að minningar og saga endurspeglist í nýjum byggingum eða formgerð borgarinnar – að þannig verði til óhindrað flæði milli fortíðar, nútíðar og framtíðar.
Sigríður Björk Jónsdóttir er með BA-próf í sagnfræði með mannfræði sem aukagrein frá HÍ, MA-gráðu í history and theory of architecure and design frá University of Essex í Englandi og stundar nú MBA nám við HR. Hún hefur t.a.m. starfað á Borgarskjalasafni og er nú stundakennari við hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ. Hún hefur m.a. ritað um Einar Erlendsson og steinsteypuklassík í Reykjavík á árunum 1920-1930, og tengsl Williams Morris við Ísland og hvaða áhrif íslensk menning og þá ekki síst bændamenning 19. aldar hafði á hugmyndir hans um hönnun og hið fullkomna samfélag.