Þriðjudaginn 3. apríl flytur Íris Ellenberger hádegisfyrirlesturinn „Delludanska, toddýsgildi og verkamenn moldugir frá verki sínu. Mót, átök og samblöndun menningar í Reykjavík 1900-1920”. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er sjötta og næstsíðasta erindi þessa vormisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Að undanförnu hafa íslenskir fræðimenn skoðað hvernig sá hreyfanleiki sem einkenndi heiminn, og þá sérstaklega Evrópu og Ameríku, á síðustu áratugum 20. aldar og fram að fyrri heimsstyrjöld, náði einnig til Íslands. Hann lýsti sér ekki aðeins í auknum komum útlendinga til landsins, bæði til varanlegrar og tímabundinnar dvalar, heldur einnig í upplausn þess þjóðfélagsskipulags sem áður hafði bundið fólk við sveitir landsins. Fjöldi Reykvíkinga margfaldaðist á fyrstu áratugum 20. aldar. Hið nýaðflutta fólk var aðallega innlent en einnig setti erlent fólk sterkan svip á bæinn, bæði fólk sem var búsett í bænum til lengri eða skemmri tíma sem og fólk sem aðeins átti leið hjá, t.d. erlendir sjómenn, fólk á farskipum, sérfræðingar sem komu til að sinna ákveðnum verkefnum o.fl. Fyrir var borgarastétt sem hafði sterk tengsl við Danmörku og mætti kalla dansk-íslenska.
Í þessum fyrirlestri verður fjallað um þá þvermenningarlegu yfirfærslu sem átti sér stað þegar fólk af ólíkum uppruna og með ólíkan bakgrunn mættist, blandaði geði og tókst á í Reykjavík á fyrstu tveimur áratugum 20. aldar. Litið verður á bæinn sem snertiflöt (contact zone) þar sem þvermenningarleg yfirfærsla (transculturation) á sér stað og mótar menningu bæjarins. Sérstök áhersla verður lögð á að skoða hvernig stétt og félagsleg staða innan bæjarsamfélagsins mótar hvernig erlend menning og menningaráhrif voru notuð og túlkuð.
Íris Ellenberger er doktor í sagnfræði frá Háskóla Íslands og nýdoktor við Sagnfræðistofnun sama skóla. Sérsvið hennar eru saga fólksflutninga, þvermenningarleg saga og saga kynverundar. Núverandi rannsóknarverkefni hennar, sem erindið fjallar um, heitir „Mót innlendrar og erlendrar menningar í Reykjavík 1890-1920” og er styrkt af Nýliðunarsjóði Háskóla Íslands.