Skip to main content

Þriðjudaginn 20. mars flytur Óðinn Melsted erindið „Umskiptin frá húshitun með olíu/kolum til jarðvarma, 1930–1980: Hvað má læra af reynslu Íslendinga?“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fimmta erindi þessa vormisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Á undanförnum misserum hefur verið lögð aukin áhersla á að rannsaka orkusögu út frá áskorunum líðandi stundar, en ein helsta áskorun á heimsvísu er „afkolun“ (e. decarbonization) í húshitun. Nú til dags þykir sjálfsagt að Íslendingar noti jarðvarma til húshitunar, en eins og annars staðar í veröldinni var meirihluti húsa lengi vel kyntur með kolum og olíu. Með byggingu hitaveitna tókst Íslendingum hins vegar að skipta út innfluttu jarðefnaeldsneyti fyrir innlendan jarðvarma. Af hverju gátu Íslendingar losað sig við jarðefnaeldsneyti? Hvað má læra af reynslu Íslendinga? Í erindinu verður fjallað um þessar spurningar á grundvelli eigin rannsókna á orsökum tveggja lykilbreytinga í íslenska afkolunarferlinu: uppbyggingu Hitaveitu Reykjavíkur upp úr 1930, þegar kolakyndingu var skipt út fyrir hverahitun, og hitaveituvæðingu landsbyggðarinnar á 8. áratugnum, þegar olíukyndingu var útrýmt með skipulögðum hætti.
Óðinn Melsted lauk BA-prófi í sagnfræði og MA-prófi í evrópskum tungumálum, sögu og menningu frá Háskóla Íslands. Hann stundar nú doktorsnám í sagnfræði við Háskólann í Innsbruck í Austurríki. Doktorsverkefni hans, „Icelandic Energy Regimes: Fossil Fuels, Renewables and the Path to Sustainability, 1940–1990“, hefur hlotið rannsóknarstyrki frá Austurrísku vísindaakademíunni (ÖAW), Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar og Samtökum evrópskra umhverfissagnfræðinga (ESEH).