Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands verður haldinn í húsi Sögufélags við Fischersund í Reykjavík laugardaginn 18. mars. Kl. 16:00, áður en venjuleg aðalfundarstörf hefjast, flytur Sigrún Sigurðardóttir sagnfræðingur og menningarfræðingur fyrirlestur sem nefnist „Engill sögunnar. Um díalektískar myndir, óvæntar minningar og fortíðina í sjálfri mér.“ Í fyrirlestrinum verður fjallað um sam(ráðs)fund fortíðar og nútíðar út frá kenningum Walters Benjamin. Sérstaklega verður hugað að hugmyndum hans um díalektískar myndir, sögu sigurvegaranna og ljósmyndir og þær skoðaðar í samhengi við hugmyndir sagnfræðingsins Domincks LaCapra og listamannsins Shimons Attie, en hann hefur notað gamlar ljósmyndir úr gyðingahverfi Berlínarborgar í pólitískri listsköpun sinni. Þá munu hugmyndir heimspekingsins Jacques Derrida um réttlæti og skilafrest (différance) koma lítillega við sögu. Að lokum verður áheyrendum boðið að narta í magðalenukökur að hætti Marcels Proust.
Sigrún Sigurðardóttir er með B.A. próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og cand.mag. próf í menningarfræði og menningarmiðlun frá Kaupmannahafnarháskóla. Sigrún er sjálfstætt starfandi fræðimaður og stundakennari við Kennaraháskóla Íslands og Listaháskóla Íslands.
Kl. 17:00 hefst aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands. Dagskrá hans verður sem hér segir:
# Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
# Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
# Lagabreytingar (engar tillögur að lagabreytingum hafa borist stjórn félagsins).
# Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga og tveggja fulltrúa í Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga til eins árs.
# Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
# Önnur mál.
Að loknum aðalfundi fjölmenna þeir sem vilja og geta á léttan og ódýran kvöldverð á veitingastaðnum Café Cultura á Hverfisgötu (gegnt Þjóðleikhúsinu). Borðhald hefst kl. 19:00. Í boði er „Shish Kebab“, marinerað lambakjöt á teini með jógúrt sósu, fersku salati og ólívum fyrir aðeins 1.430 kr. Áhugasamir skrái sig sem allra allra fyrst hjá Guðna Th. Jóhannessyni (sími 895-2340).