Guðmundur Hálfdánarson prófessor flytur erindið Er íslenskt fullveldi í kreppu? þriðjudaginn 1. desember kl. 12.05 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins sem ber yfirskriftina Hvað er kreppa?
Í lýsingu á erindinu segir:
Allt frá því að fullveldi íslensku þjóðarinnar var formlega viðurkennt með gildistöku sambandslaga Íslands og Danmerkur hinn 1. desember 1918 hefur óttinn við að þjóðin glataði því aftur verið áberandi í íslenskri stjórnmálaumræðu. Þar hefur helst verið bent á meinta erlenda ásælni, hvort sem hún hefur birst í útþenslustefnu stórveldanna í kalda stríðinu, fjárfestingum auðhringa í íslensku efnahagslífi, áskorunum um þátttöku Íslands í alþjóðlegum stofnunum eða ríkjasamböndum, o.s.frv. Nú rúmu ári eftir hrun íslenska fjármálakerfisins virðist fullveldi landsins enn vera ógnað, enda þarf ríkisstjórn Íslands að fylgja erlendum fyrirmælum um gerð fjárlaga og nokkur vafi leikur á að þjóðin geti staðið undir skuldbindingum sínum í framtíðinni.
Hvernig stendur á því að svo er komið fyrir þjóðinni og hvaða líkur eru á því að þjóðin muni endurheimta fjárhagslegt fullveldi sitt að kreppunni yfirstaðinni?
Sem fyrr er fyrirlesturinn öllum opinn og ókeypis.