Þriðjudaginn 9. október halda hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélags Íslands „Hvað er Evrópa“ áfram. Axel Kristinsson, sagnfræðingur, fjallar um evrópska samkeppniskerfið.
Þótt saga Evrópu sé um sumt óvenjuleg er hún ekki eins einstök og Evrópubúar vilja gjarnan ímynda sér. Hún á margt sameiginlegt með sögu annarra samfélaga á ýmsum tímum og í ýmsum heimshlutum. Frá 11. öld og fram á þá 20. tilheyrði Evrópa flokki sögulegra fyrirbæra sem kalla má samkeppniskerfi. Álfan var þá eins og bútasaumur margra pólitískra eininga sem áttu í harðri samkeppni sín á milli þrátt fyrir að menning og samfélagshættir væru keimlíkir víðast hvar. Slík fyrirbæri eru nokkuð algeng í sögu mannkyns og ávallt fylgir þeim ekki aðeins ófriður og átök heldur líka nýbreytni og frumleiki á mörgum sviðum. Önnur dæmi um slík fyrirbæri eru Grikkland að fornu og Ísland á þjóðveldisöld sem bæði eru forvitnileg til samanburðar. Í fyrirlestrinum verður saga Evrópu skoðuð út frá sjónarhóli samkeppniskerfa og bent á ýmislegt sem er dæmigert fyrir slík kerfi en einnig sumt sem er óvenjulegt. Sérstaklega verður hugað að myndun jaðarvelda, stórvelda í útjaðri samkeppniskerfa sem eiga það til að vaxa þeim yfir höfuð og eyða þeim.
Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og standa frá klukkan 12.05 til klukkan 12.55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.