Þriðjudaginn 26. apríl heldur Hrafnkell Lárusson síðasta hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins í vor. Fyrirlesturinn kallast „Félagabylgjan á 19. öld: forsenda fjöldahreyfinga?“ Hann hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Fram eftir 19. öld var félagastarf á Íslandi fremur lítið og þátttaka í því ekki almenn. Þeir sem helst drógu vagninn í þeim félögum störfuðu á fyrri hluta 19. aldar voru embættismenn og aðrir háttsettir einstaklingar í samfélaginu. Þrátt fyrir ítrekaðar hvatningar (t.d. af hálfu Jóns Sigurðssonar í Nýjum félagsritum, strax árið 1844) óx félagastarf með þátttöku almennings mjög hægt þar til á síðasta fjórðungi 19. aldar, en þá verða afgerandi skil. Um og uppúr 1880 reis bylgja félaga sem stofnuð voru um hin margvíslegustu efni. Sum þessara félaga urðu síðar hluti skipulagðra fjöldahreyfinga en önnur ekki. Flest félögin störfuðu í litlum einingum, innan einstakra sveita eða héraða. Þessi félög störfuðu á lýðræðislegum grunni, starf þeirra miðaði að því að auðga og bæta samfélagið og þau leituðust við að höfða til almennings og hvetja sem flesta til þátttöku.
Sú þróun sem hér er lýst í örstuttu máli vekur ýmsar spurningar: Hvað olli því að þessi félagabylgja reis – og á þeim tíma sem um ræðir en ekki fyrr? Hvaða hvatar leiddu til þessa og hvaðan komu þeir? Hvers vegna tók íslenskt alþýðufólk, sem upp til hópa hafði takmörkuð lýðræðisleg réttindi (fæstir höfðu kosningarétt eða kjörgengi), að taka þátt í félagastarfi? Var þessi félagabylgja forsenda skipulagðra fjöldahreyfinga sem urðu til um aldamótin 1900 eða hefðu þær orðið til hvort sem er?
Hrafnkell Lárusson er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Doktorsverkefni hans ber yfirskriftina Lýðræði í mótun: viðhorf, iðkun og þátttaka almennings.