Skip to main content

Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur flytur erindi Gamall eða nýr tími á 18. öld? þriðjudaginn 2. mars kl. 12.05 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Í erindinu fjallar Hrefna um hugmyndir um hvernig líta megi á landshagi og samfélagsmál á átjándu öld með hliðsjón af öldunum sem umlykja hana, þá sautjándu og þá nítjándu. Öldin átjánda hefur fengið margar umsagnir og dóma í sagnaritun, öld áfalla, öld nýjunga, öld náttúruhamfara og svo mætti áfram telja. Hluta þessara dóma verður áfrýjað í erindinu og gerð tilraun til að fella nýja. Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins sem ber yfirskriftina Hvað er dómur sögunnar?
Í erindinu verður áttavita tímans beint að ýmsum fyrirbærum 18. aldarinnar og dómar sögunnar um þá leitaðir uppi. Meðal þess sem skoðað verður er verkaskipting kvenna og karla við ullarvinnu og fiskveiðar, vinnulöggjöf og viðhorf til handverks og atvinnustarfsemi Innréttinganna. Hvar eru vísbendingar um stöðugleika og hvar eru sprotar breytinga?
Átjándu öldina má t.d. skoða í samhengi við þéttbýlismyndun 19. aldarinnar og leita eftir leiðarþráðum sem tengja má við það sem leiddi til breyttra búsetuhátta. Voru t.d. mikil tengsl á milli kaupstaðarstofnunarinnar 1786 og þéttbýlismyndunar í lok 19. aldar? Eins má líta á stofnun sömu kaupstaða 1786 í samhengi við tilraunir til eflingar handverksvinnslu á 17. öld. Var samhengi milli hugmynda Vísa-Gísla um stofnun þorpa um miðja 17. öld og þeirra sex kaupstaða sem stofnaðir voru öld síðar?