Skip to main content

Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur og rithöfundur, var kosinn heiðursfélagi í Sagnfræðingafélagi Íslands á aðalfundi félagsins í mars.

Guðjón á að baki farsælan feril við rannsóknir og miðlun sögu. Hann hefur verið í fremstu röð sagnfræðinga við að koma sögunni á framfæri við almenning.

Í viðtali í Kiljunni sagði Guðjón meðal annars um störf sín. „En mér finnst bara mjög nauðsynlegt að koma sögunni áleiðis til almennings. Það hefur verið mitt mottó. Það verða einhverjir sagnfræðingar að gera það; skrifa fyrir almenning.“

Frá 1980 hefur hann sent frá sér fjölda bóka um sögu lands og þjóðar, þær fyrstu um framboð Vigdísar Finnbogadóttur til forseta. Hann er margverðlaunaður og hefur til að mynda hlotið Bókmenntaverðlaun Íslands fjórum sinnum, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og árið 2015 hlaut hann riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta og söguritunar.

Meðal bóka Guðjóns má nefna ævisögur hans um Jón Sigurðsson og Einar Benediktsson, Bærinn vaknar og Börn í Reykjavík sem kom út í fyrra. Allar tryggðu þær honum Bókmenntaverðlaunin. Hann hefur skrifað feikivinsælar ævisögur, bækur um sögu Reykjavíkur og Kaupmannahafnar sem höfuðstaðar Íslands, og sögur félagasamtaka og stofnana.

Samhliða ritstörfum sínum hefur Guðjón sinnt ýmsum félagsstörfum, svo sem stjórnarsetu í Rithöfundasambandi Íslands og setu í stjórnu félaga um minjavernd.

Helgi Þorláksson fór yfir feril Guðjóns í erindi sem hann flutti á aðalfundinum. Þeir eru æskuvinir og sagði Helgi bæði sögur af uppvexti þeirra og námi, og ferli Guðjóns. Sjálfur var Helgi kosinn heiðursfélagi fyrir þremur árum fyrir sín störf í þágu sagnfræðinnar og því óhætt að segja að ýmislegt sé líkt með vinunum tveimur.

Guðjón er tólfti heiðursfélaginn í rúmlega hálfrar aldar langri sögu Sagnfræðingafélags Íslands.