Skip to main content

Næstkomandi þriðjudag, 2. desember, halda Jón Ólafsson og Lára Magnúsardóttir hádegisfyrirlestra með yfirskriftinni „Söguskoðun, heimspeki og samfélag“ á vegum Sagnfræðingafélags Íslands. Fyrirlestrarnir fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og hefjast kl. 12:05.
Lýsing á fyrirlestri Jóns:
Þegar kalda stríðinu lauk fyrir tæpum aldarfjórðungi virtist það algeng skoðun í samfélaginu að verkefni sagnfræðinga og annarra sem vildu stúdera og skrifa um þetta furðulega tímabil, væri að varpa skýrara ljósi á atburði og deilumál sem flestum væru í raun þegar kunn. Aðgengi að heimildum um hinar föllnu kommúnistastjórnir myndu gera mögulegt að lýsa betur en áður kúgun þeirra á eigin þegnum, hægt væri að upplýsa um samstarf flokka og einstaklinga á Vesturlöndum við Austantjaldsríkin og svo framvegis. Þó að vissulega hafi margvíslegar heimildir komið fram sem staðfesta það sem marga grunaði og bæta við upplýsingum um margt sem enginn vissi, þá er ekki þar með sagt að umræða um einstök deilumál kalda stríðsins séu eitthvað nær því að vera óumdeild en áður. Þvert á móti: Á vettvangi stjórnmála og í fræðunum heldur glíman um söguskoðun og samfélagsskilning áfram að kynda pólitíska elda. Í fyrirlestrinum verður notast við tvö nýleg dæmi úr kaldastríðsumræðu, eitt danskt og annað íslenskt, til að velta vöngum yfir því hvers vegna einstök atvik og persónur kaldastríðsáranna halda áfram að kynda undir pólitískar deilur samtímans.
Jón Ólafsson er prófessor í heimspeki við Háskólann á Bifröst. Síðasta bók hans var Appelsínur frá Abkasíu. Vera Hertzsch, Halldór Laxness og hreinsanirnar miklu, sem kom út árið 2012 og hlaut fræðiritaverðlaun Hagþenkis, en einnig er nýlega komin út í hans ritstjórn bókin Lýðræðistilraunir. Ísland í hruni og endurreisn.
Lýsing á fyrirlestri Láru:
Kirkjan í sögu vestrænna ríkja er sambærileg við kommúnistaríki 20. aldar að því leyti að þar er um að ræða stofnun sem tilheyrir fortíðinni og nokkuð almenn og nokkuð viðtekin sýn ríkir um hlutverkið sem hún lék. Á síðustu áratugum hefur áhugi á stöðu trúarstofnana innan ríkis aukist og mikilvægi þess að geta tekið gagnlega afstöðu til hennar. Það hefur kallað fram nýjar rannsóknir, meðal annars á sviði réttarsögu, sem dó nánast drottni sínum eftir síðari heimsstyrjöldina, hefur gengið í endurnýjun lífdaga, bæði vegna sameiningar Evrópu og löggjafarstarfs sem því fylgir, en einnig vegna alþjóðavæðingar. Á þeim vettvangi getur afstaða til kirkjusögu skipt miklu því að á Vesturlöndum voru kirkjur ríkisstofnanir í beinum tengslum við réttarkerfið svo öldum skipti. En málefni sem varða kirkju og trúmál innan ríkisheildar eru ekkert nær því að vera óumdeild en áður.
Lára Magnúsardóttir er lektor við Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra. Rannsóknir hennar snúa að afskiptum yfirvalda af einkamálum manna og doktorsritgerð hennar fjallaði um kirkjuvald á síðari hluta miðalda og rannsóknaraðferðir til greiningar á því.