Næstkomandi þriðjudag, þann 21. október, halda Ann-Sofie Gremaud og Sverrir Jakobsson hádegisfyrirlestra á vegum Sagnfræðingafélagsins undir yfirskriftinni „Þjóðarímyndir og söguskoðanir Íslendinga á ólíkum tímum“. Hádegisfyrirlestrarnir fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og hefjast kl. 12:05.
Í söguskoðunum manna birtast hugmyndir þeirra um eigin fortíð. Þeim fylgja ákveðnar ímyndir sem hópurinn eignar sér og ber saman við ímyndir annarra hópa. Þjóðarímyndir og söguskoðanir eru þannig samofin. Hvernig hafa þjóðarímyndir birst í söguskoðun Íslendinga á ólíkum tímum? Hvaða hópa eða þjóðir hafa Íslendingar borið sig saman við og hvers konar ímyndir hafa þeir notað í sköpun söguskoðunar og sjálfsmyndar sinnar?
Ann-Sofie Gremaud er er menningarsagnfræðingur og vinnur um þessar mundir við Kaupmannahafnarháskóla að alþjóðlega rannsóknarverkefninu „Denmark and the New North Atlantic“. Doktorsritgerð hennar, sem hún varði fyrir tveimur árum, fjallaði um samband Íslands og Danmerkur, íslenska þjóðarímynd og lýsingar á íslensku landslagi út frá eftirlendufræðum og kenningum um dullendur.
Sverrir Jakobsson er prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Doktorsritgerð hans fjallaði um heimsmynd Íslendinga 1100-1400 og kom út í bók undir nafninu Við og veröldin árið 2005. Sverrir stýrir um þessar mundir stóru rannsóknarverkefni um sögu Breiðafjarðar og var einn útgefenda Hákonar sögu, sem kom út á vegum Íslenzkra fornrita árið 2013.
Allir velkomnir!