Skip to main content

Þriðjudaginn 15. nóvember flytur Jón Árni Friðjónsson erindi um sögukennslu í íslenskum framhaldsskólum 1946–1996. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Saga varð fyrst mikilvæg námsgrein í íslenskum skólum á heimastjórnartímanum. Sú söguskoðun sem þá mótaðist horfði ekki aðeins til fortíðar heldur vísaði líka til framtíðar og útópía hennar varð að veruleika með stofnun lýðveldis 1944. Forsögn hennar náði ekki öllu lengra þó reynt væri að framlengja hana; á sjöunda áratugnum tók hún að missa merkingu sína. Um hina almennu mannkynssögu ríkti ekki mikill ágreiningur, hún var fyrst og fremst þjálfunarefni fyrir verðandi embættis- og menntamenn. Upp úr 1970 breyttist allt; skólakerfið tók stakkaskiptum, ný viðhorf komu fram á sviði kennslufræða og mikil fjölgun ungs fólks knúði á um víðtæka nýsköpun framhaldsskólans. Þá sprengdi íslensk sagnfræði af sér fjötra hefðar og félagssaga tók að setja svip sinn á námsefni. Þessum umskiptum var ekki tekið fagnandi alls staðar. Róttækni tíðarandans varð heldur ekki til að draga úr ótta þeirra sem töldu nýja sögutúlkun boða illt og brátt upphófust ásakanir á hendur kennurum og námsefnishöfundum um pólitíska áróðursstarfsemi.
Enginn vafi er á því að mati höfundar að hin illskeytta pólitíska umræða áttunda og níunda áratugarins kom sér illa fyrir söguna sem námsgrein. Verra var þó hve veik staða hennar var á hinu kennslufræðilega sviði. Það er og ein niðurstaða rannsóknar Jóns Árna að mikilvægustu eiginleikar hennar sem námsgreinar hafi lengst af verið vanmetnir.
Jón Árni Friðjónsson er fæddur 1954 í Reykjavík og lauk BA prófi í íslensku og sagnfræði frá HÍ. Hann lauk MA prófi í sagnfræði frá sama skóla og hafði framhaldsskólakennslu að meginstarfi allt fram til 2015. Höfundur segir þetta hafa verið mikið umbrotaskeið í íslensku skólakerfi en í lok aldar var ljóst að margt var þar enn að breytast og sumt jafnvel meira en greint varð í fljótu bragði. Þetta vakti þá hugmynd að rannsaka sögu framhaldsskólans á síðari hluta 20. aldar frá sjónarhóli þeirrar námsgreinar sem leikið hafði lykilhlutverk um það leyti sem lýðveldið var stofnað, söguna sjálfa. Doktorsverkefni hans, var unnið undir leiðsögn Lofts Guttormssonar prófessors við KHÍ, síðar Menntavísindasvið HÍ. Ritgerðin var lögð fram til varnar haustið 2013.