Þriðjudaginn 16. október flytja Erla Dóris Halldórsdóttir og Magnús Gottfreðsson hádegisfyrirlesturinn „Áhrif spænsku veikinnar á barnshafandi konur á Íslandi árið 1918“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er þriðja erindi þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema haustsins er að þessu sinni hörmungar.
„Fyrri hluta ársins var heilsufar í betra meðallagi hér í bænum, inflúensufarsótt sú, sem hingað barst í lok októbermánaðar, gjörbreytti þessu og verður að telja ár þetta hörmulegasta og sorglegasta árið í heilsufarstilliti, bæði vegna þess hversu margir veiktust og ennfremur af hinum mikla og óvanalega manndauða.“ Þetta skráði Jón Hj. Sigurðsson læknir í Reykjavík í ársskýrslu sinni til landlæknis í lok árs 1918. Hjá Jóni kom ennfremur fram að fjöldi gravidra kvenna leystist höfn og fósturlát af völdum veikinnar voru algeng. Mikill fjöldi fæðandi kvenna beið bana.
Sá hópur sem hefur litla umfjöllun fengið í frásögnum af spænsku veikinni eru barnshafandi konur en dánartíðni þeirra var allt að 37% í veikinni. Í fyrirlestrinum verður dregin upp mynd af þeim konum sem misstu fóstur í veikinni, þeim konum sem fæddu fársjúkar, þeim sem fæddu minna veikar og af öðrum sem dóu áður en þær náðu að fæða. Leitað verður svara við spurningunni hver áhrif spænsku veikinnar voru á barnshafandi konur og litið bæði til Íslands og hinna Norðurlandanna í því skyni. Af hverju veikin lagðist þyngra á konur á fyrri hluta meðgöngu en í lok meðgöngunnar? Þær sem voru komnar að fæðingu urðu minna veikar en hinar, sem styttra voru gengnar.
Erla Dóris Halldórsdóttir er sagnfræðingur og hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún er með sérmenntun í gjörgæsluhjúkrun frá Haukeland sjúkrahúsinu í Bergen í Noregi. Hún hefur einnig lokið BA- og MA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Í október 2016 varði hún doktorsritgerð í sagnfræði, Fæðingarhjálp á Íslandi 1760-1880 við Sagnfræði- og heimspekideild HÍ. Rannsóknir Erlu Dórisar í sagnfræði hafa einkum verið á sviði heilbrigðissögu.
Magnús Gottfreðsson er smitsjúkdómalæknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Hann lauk embættisprófi frá læknadeild HÍ árið 1991, doktorsprófi frá sömu deild 1999 og stundaði sérnám í lyflækningum og smitsjúkdómum við Duke háskóla í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum 1993-1999. Hann hefur stundað rannsóknir á alvarlegum sýkingum, þ.á.m. inflúensu og heilahimnubólgu en jafnframt leitast við að nýta sagnfræðileg gögn til að varpa ljósi á faraldra fyrri alda hérlendis.