Skip to main content

Þriðjudaginn 2. október flytur Guðmundur Jónsson hádegisfyrirlesturinn „Refsing guðs, náttúruhamfarir eða samfélagsmein? Um orsakir hungursneyða á Íslandi“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er annað erindi þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema haustsins er að þessu sinni hörmungar.
Sautjánda og átjánda öldin hafa verið kallaðar hunguraldirnar í sögu Íslands enda voru þá hallæri fleiri og hungurdauði meiri en á flestum öðrum öldum Íslandssögunnar. Á tímum trúrækni og strangra siðaboða á árnýöld töldu margir að harðæri og hungur væru refsing Guðs fyrir syndugt líferni. En síðan Malthus var á dögum hafa kenningar um fæðuframboð (e. food availability theories) verið áhrifamestar skýringa á hungursneyðum. Á Íslandi hafa menn rakið samdrátt fæðuframboðs fyrst og fremst til náttúruhamfara eða versnandi veðurfars en með nýjum viðhorfum í rannsóknum á fæðukreppum á síðustu áratugum 20. aldar fóru menn að beina athyglinni meir og meir að samfélagslegum þáttum, viðbrögðum almennings og stjórnvalda og veikleikum í samfélagsbyggingu. Í erindinu fjallar Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði um hvernig skilningur fræðimanna á orsökum hungursneyða hefur breyst.