Skip to main content

Þriðjudaginn 18. september flytur Valur Gunnarsson hádegisfyrirlesturinn „Á milli Hitlers og Stalín: Mestu hörmungartímar Norðurlanda á 20. öld“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fyrsta erindi þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema haustsins er að þessi sinni hörmungar.
Seinni heimsstyrjöldin var án nokkurs vafa mesti harmleikur 20. aldar og lét Norðurlöndin ekki ósnortin. Um 10.000 Norðmenn, 6.000 Danir og 75.000 Finnar týndu lífi á þessum sex árum, auk 230 Íslendinga. Markmið allra ríkjanna í upphafi stríðs var að halda sig utan við átökin, en öll drógust þau inn í stríðið að Svíþjóð undanskilinni. Hvernig gerðist það að stríðið leitaði norður á bóginn í þetta sinn, og hefði það getað farið öðruvísi?
Valur Gunnarsson er sagnfræðingur og bókmenntafræðingur að mennt og er að hefja doktorsnám í ritlist við hinn virta University of East Anglia. Hann hefur sent frá sér þrjár skáldsögur. Sú nýlegasta, Örninn og fálkinn, fjallar um hvað hefði getað gerst ef Þjóðverjar hefðu hernumið Ísland í stað Breta árið 1940.