Þriðjudaginn 19. september flytur Kristín Bragadóttir erindið „Íslenskar bækur erlendis. Bókasöfnun Willards Fiskes (1831–1904)”. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fyrsti fyrirlestur þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Erindi Kristínar fjallar um efni doktorsritgerðar hennar í sagnfræði, „Íslenskar bækur erlendis. Bókasöfnun Willards Fiskes (1831–1904)“, sem hún varði sumarið 2017. Ritgerðin er menningarsöguleg og bóksöguleg rannsókn á söfnun Bandaríkjamannsins Willards Fiskes á íslenskum og Íslands-tengdum ritum á árunum 1850 til 1904. Safn Fiskes er þriðja stærsta safn íslenskra rita á eftir Landsbókasafni Íslands og Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Einnig er fjallað um tengslanet Fiskes við Íslendinga, og styðst Kristín þar mjög við bréf Fiskes til Íslendinga og frá Íslendingum til hans.
Kristín Bragadóttir er íslenskufræðingur og sagnfræðingur. Hún er með doktorsgráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er bóksaga. Hún er sjálfstætt starfandi fræðimaður.