Skip to main content

Eftirfarandi erindi hélt Kristín Svava Tómasdóttir fyrir hönd Sagnfræðingafélagsins á málþingi til heiðurs Önnu Agnarsdóttur sjötugri, sem haldið var af Sögufélagi og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands þann 13. maí sl.
Heiðraða samkoma, forsetar, Anna Agnarsdóttir
Það er Sagnfræðingafélagi Íslands mikil ánægja að taka þátt í því að heiðra prófessor Önnu Agnarsdóttur á þessum tímamótum. Við sem sitjum í stjórn félagsins erum mörg hver fyrrum nemendur Önnu og vitum hversu sárt hennar verður saknað við sagnfræðideild Háskóla Íslands, enda er leitun að þeim fræðimanni sem miðlar sögunni á jafn heillandi og skemmtilegan hátt. Okkar framlag hér í dag felst þess vegna í hugmyndum að því sem Anna gæti tekið sér fyrir hendur þjóðinni til heilla þegar hún hefur hætt störfum við Háskólann.
Við leggjum til að Anna taki að sér að stýra röð sjónvarpsþátta um sérsvið sitt, tengsl Íslands og umheimsins, og þá einkum Bretaveldis, á 18. og 19. öld. Það yrði í formi ferðaþátta þar sem Anna fetaði í fótspor erlendra ferðamanna á Íslandi. Hún myndi fara þangað sem þeir fóru, gista þar sem þeir gistu, borða það sem þeir borðuðu og hitta þá sem þeir hittu.
Þannig myndi Anna ferðast um landið ríðandi, fótgangandi og siglandi, fara í Klúbbinn, klífa Heklu, skoða í bókahillur bænda, tína plöntur og hraunmola, skjóta rjúpur, svani og erni og sjóða í hverum, hlýða á rammfalskan íslenskan söng og hljóðfæraleik, gera hæðarmælingar með sextanti, borða ógrynnin öll af sagósúpu, sagógraut, sagóhlaupi og sagóbúðingi, ræða við klerka og kennimenn á latínu og gista í tjöldum og í kirkjum. Óhjákvæmilega færi þó nokkur hluti þáttanna fram í kirkjum, þar sem Anna og samferðamenn hennar myndu ekki einungis gista – innan um ýmis konar skran og fisk á öllum mögulegum herslustigum – heldur einnig reykja vindla og drekka púrtvín, borða á altarinu og hengja fötin sín til þerris á gráturnar eftir daglanga baráttu við íslenskt slagviðri.
Í fyrsta þættinum myndi Anna auðvitað feta í fótspor Sir Joseph Banks og fara Gullna hringinn, gista í Skálholti og drekka vín og brandí með rallhálfum guðsmönnum í morgunmatnum. Með Gyðu Thorlacius myndi hún sundríða ár og búa um lærbrot með heimatilbúnum spelkum úr hertu sauðskinni. Hún myndi vitna í Schiller við Geysi með Idu Pfeiffer og rekja spor séra Ebenesers Henderson með fimmþúsund eintök af Biblíunni í hnakktöskunni. Hún legði Henry Holland og félögum lið við að stilla til friðar eftir að Savignac kaupmaður sakaði veiðimann í Elliðaánum um að hafa viljandi kastað framan í sig laxi. Síðast en ekki síst myndi Anna fylgja hundadagakonungnum út í Viðey til Ólafs Stephensen, gúffa í sig tólf harðsoðnum kríueggjum með þykkri rjómasósu, sagósúpu og laxi, sauðakjöti og vöfflum, norsku kexi og rúgbrauði, og skála fyrir Sir Joseph Banks í víni og rommpúns milli rétta.
Hér er aðeins tæpt á örfáum af þeim möguleikum sem væru fyrir hendi við gerð slíkra sjónvarpsþátta, en þeir væru að sjálfsögðu framleiddir í samvinnu íslenska Ríkissjónvarpsins og BBC. Þættirnir myndu stuðla að því að breiða út um heimsbyggðina hróður bæði sagnfræðinnar og Önnu Agnarsdóttur.
Kæra Anna: Sagnfræðingafélagið sendir þér sínar bestu afmæliskveðjur. Við hlökkum til að horfa.