Skip to main content

Þriðjudaginn 20. febrúar flytja Anna Dröfn Ágústsdóttir og Guðbrandur Benediktsson erindið „Sagan á sýningu? Um aðferðafræði safna og vinnu sagnfræðinga við miðlun sögu á Sjóminjasafninu í Reykjavík.“ Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er þriðji fyrirlestur vormisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Nú er unnið að því að setja upp nýja grunnsýningu á Sjóminjasafninu í Reykjavík, sem er hluti af Borgarsögusafni Reykjavíkur, en sýningin mun verða opnuð í júní. Síðustu ár hefur hópur sérfræðinga unnið að undirbúningi sýningarinnar, en leitast er við að lýsa sögu og þróun helsta atvinnuvegar þjóðarinnar á hnitmiðaðan máta, með áherslu á 20. aldar sögu og útgerð frá Reykjavík. Guðbrandur Benediktsson safnstjóri Borgarsögusafns og Anna Dröfn Ágústsdóttir sagnfræðingur og umsjónarmaður sýningahandrits munu segja frá margþættri vinnu við sýninguna. Í erindinu verður fjallað um aðferðarfræði og hugmyndir á söfnum og innan safnafræði við sýningagerð og vinnu sagnfræðinga við grunnsýningu Sjóminjasafnsins. Rætt verður um undirbúning og afmörkun rannsóknar, helstu efnisþætti sýningarhandrits og miðlunarleiðir.

Guðbrandur Benediktsson er safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur. Hann er með MA gráður í sagnfræði frá Háskóla Íslands og safnafræði frá Gautaborgarháskóla. Megináherslur hans í rannsóknum hafa snúið að ljósmyndum annars vegar og miðlun sögu hins vegar. Guðbrandur hefur kennt námskeið í sagnfræði, safnafræði og hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands, sem og ferðamálafræði.

Anna Dröfn Ágústsdóttir er aðjúnkt og fagstjóri við Listaháskóla Íslands. Hún er með MA gráðu í bæði sagnfræði og hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Í rannsókn sínum hefur Anna Dröfn skoðað fjölbreytta þætti reykvísks borgarlífs en hún hefur meðal annars skoðað þéttbýlisþróun, heilbrigðis- og húsnæðismál, skipulag og byggingarlist í Reykjavík. Árið 2013 kom út bókin Reykjavík sem ekki varð sem Anna Dröfn skrifaði ásamt Guðna Valberg arkitekt.